Hvern á ég að kjósa og afhverju ég kýs Í-listann.

Hvern á ég að kjósa? 

Þegar maður hefur lítið fylgst með bæjarmálum og stendur svo dag einn frammi fyrir því að þurfa að kjósa í bæjarstjórnarkosningum getur verið flókið að átta sig á hvað maður á að kjósa og af hverju.

Vissulega eigum við það til að snúa okkur að fólkinu í kringum okkur og leita eftir svörum. Skoðanir og val annarra eru hjálpleg verkfæri til að kynna sér málin betur en það er ekki síður mikilvægt að reyna að kynna sér málin sjálfstætt til að geta rökstutt, fyrir sjálfum sér, afhverju maður setur X við ákveðinn lista.
Þegar maður hefur ekki tíma eða jafnvel lítinn áhuga á viðfangsefninu, er auðvelt að líta á umræður um þau mál sem mestur hávaði er í kringum og velja hvert atkvæðið fer út frá því.

Sundlaugar, íþróttahús og önnur stærðarinnar verkefni. Þetta eru mál sem hátt hefur farið af og fólk skiptist í fylkingar. Auðvitað. Þetta skiptir okkur máli. En við verðum að geta horft á kjörtímabilið heilt yfir. Við verðum að gera okkur grein fyrir öllum smáatriðunum sem eru, þegar öllu er á botninn hvolft, atriði sem segja hvað mest um velgengni og farsæld Ísafjarðarbæjar og íbúa hans.
Kosningar snúast nefnilega ekki um að kjósa listann með flottustu loforðin, þær snúast um að kjósa fólk sem áttar sig á allri hinni vinnunni sem fer í að halda bæjarfélagi gangandi. Allri vinnunni sem er mörgum ósýnileg en skiptir gríðarlegu máli í bæjarfélagi á uppleið.

Við hljótum að geta séð að enginn, sem býður sig fram til að starfa í þágu bæjarins, vill neitt annað en uppbyggingu og jákvæðar breytingar. Það er enginn sem vinnur markvisst að því að halda bæjarfélaginu niðri og hunsa vilja íbúanna. Það er enginn sem gerir sér það af gamni að tefja mikilvæg mál og teppa þannig framþróun bæjarins.
Við verðum að skilja það, sem kjósendur, að það er mikið af stórum verkefnum sem þarf að vinna. Um þessi verkefni verður að nást sátt, útkoma þessara verkefna verður að vera besta mögulega niðurstaða fyrir bæinn okkar.

Allir frambjóðendur, allra flokka, vilja það sem íbúarnir vilja. Betri Ísafjarðarbæ. Við viljum fleira fólk, fjölbreyttari og aðgengilegri tómstundir, að nauðsynlegu viðhaldi sé sinnt og fyrst og fremst að hér verði uppbygging.

Þetta hefur væntanlega alltaf verið vilji allra en það hefur bara ekki öllum tekist að forgangsraða hlutunum þannig að þetta gangi upp. Í-listinn hefur sýnt það á líðandi kjörtímabili að uppbygging er möguleg. Ég leyfi mér að fullyrða að Ísafjarðarbær er hægt og rólega að stíga upp úr öskunni. Og það er ekki endilega af því að Í-listinn vill betur en aðrir. Það er einfaldlega af því hann hefur náð að spila rétt úr þeim spilum sem hann hefur á hendi og skapað þannig umhverfi að íbúarnir sjálfir geti tekið þátt í uppbyggingu samfélagsins á sem skilvirkastan máta. Harðduglegir og framsæknir íbúar bæjarins eiga hér mestan heiður af þeirri björtu framtíð sem nú blasir við, en til að íbúarnir og atvinnurekstur þeirra fái notið sín þarf að skapa þeim gott umhverfi og stuðning.

Við getum þóst halda að hér sé utanaðkomandi öflum að þakka fyrir allt sem vel hefur farið á kjörtímabilinu. Betri staða í efnahagslífinu, uppsveifla, flóttinn úr Reykjavík, íþróttamenn að flytja til bæjarins, fólk að vinna í göngum. En ef við erum sannfærð um að íbúafjölgun og uppbygging sé bara einhverjum ósýnilegum öflum að þakka, af hverju göngum við þá yfir höfuð til kosninga? Eigum við að trúa því að bæjarstjórn hafi ekkert að segja um fólksfjölgun? Persónulega hef ég ekki áhuga á að kjósa fulltrúa í bæjarstjórn sem halda að hlutirnir gerist af sjálfu sér. Uppbygging kostar vinnu. Smáatriði skipta máli.

Við viljum stóra sundlaug í Skutulsfjörð já, við viljum fjölnota íþróttahús já. Það er aldrei meiri forsenda fyrir slíkum verkefnum en einmitt þegar fólki fjölgar í bæjarfélaginu. Til þess að halda áfram að stuðla að fjölgun þarf að byggja hér upp blómlegan og fallegan bæ þar sem grunnurinn er traustur og veitir möguleika á frekari uppbyggingu.
Það ákveður enginn að flytja til Ísafjarðar BARA af því að það er svo dýrt að búa í Reykjavík. Við byggjum okkur ekki trékofa að búa í bara því það er ódýrara en alvöru hús. Við veljum okkur staði þar sem þjónustan er góð, þar sem samfélagið blómstrar og þar sem íbúar fá að hafa rödd þegar stórar ákvarðanir eru teknar.

Af hverju Í-listann?

Auðvitað finnst fólki að hér hefði mátt gera meira á kjörtímabilinu. Þannig líður manni alltaf þegar maður þráir að byggja upp bæinn sinn, það er aldrei nóg og það er aldrei búið. En núna, í fyrsta skipti í langan tíma, eru hlutirnir að gerast. Og ég er ekki tilbúin að skrifa allt það frábæra sem hér hefur gerst á einhver öfl sem við höfum enga stjórn á. Ég er tilbúin að þakka Í-listanum fyrir hvernig þau hafa, í samráði við íbúa, náð að spila úr þeim spilum sem þau hafa fengið á hendi. Ég er tilbúin að kjósa þau áfram til góðra verka af því að þau hafa sýnt að þau eru traustsins verð.

Það getur nefnilega alveg verið uppsveifla og  “hagstæður tími til að vera í bæjarstjórn” en fólki getur samt mistekist að nýta sér það til góðs. Í-listanum hefur ekki mistekist.

Í-listinn er eini listinn með manneskju undir 25 ára í efstu þremur sætunum. Það er heillandi því rödd ungmenna verður að heyrast og Í-listinn leggur áherslu á aukið hlutverk ungmennaráðs.
Í-listinn leggur áherslu á íbúalýðræði, þ.e. að íbúar hafi aukna aðkomu að málefnum sveitarfélagsins og að við fáum öll að taka þátt í að byggja upp samfélagið okkar. Þessu á að skerpa enn frekar á á næsta kjörtímabili. Svona hlutir verða ekki fullkomnaðir yfir nótt en ég vona að Í-listinn fái að halda áfram að efla boðleiðir og auðvelda þátttöku íbúa við ákvarðanatöku.
Í-listinn hefur það einnig sem markmið að efla geðheilbrigðismál, auka sérfræðiþjónustu til að mæta þörfum barna og fara í markvissa vinnu til að takast á við kvíða barna og ungmenna. Nokkuð sem er ótrúleg þörf á og hefur mikið að segja fyrir samfélagið okkar í heild.

Ég vil að lokum koma inn á mikilvægi þess að kjósa fólk sem veit hvað er að gerast í bænum okkar og hefur ástríðu fyrir starfinu. Þetta er ekki spurning um að sigra. Þetta er spurning um að vinna.**fyrir íbúana og bæinn okkar.

Katrín María Hvernig lítur andleg lægð út?

Við erum veik fyrir því að horfa og sjá. Við mælum fólk og hluti út með augunum áður en við leggjum virði í karakter þeirra og persónueinkenni. Ósjálfrátt. Við erum sköpuð með augu sem sjá hið áþreifanlega áður en við tökum eftir því óáþreifanlega. 

Ég hef áður komið stuttlega inn á andleg veikindi- svosem ekki oft. Kannski aðallega einu sinni, í þessari færslu hér, en ég er semsagt ein af þeim sem stjórnar hugsunum sínum ekki alltaf fullkomlega. Undanfarnar vikur má segja að ég hafi fundið fyrir lægð inni í mér. Hvergi nærri eins slæmri og þeirri sem ég lýsti í færslunni sem ég bendi á hér að ofan, en lægð engu að síður. 

Ég áttaði mig ekki einu sinni á því fyrr en mér var bent á það af yndælli vinkonu, að ég hef þroskast helling í viðhorfi mínu og baráttu við andleg veikindi síðan ég sagði skilið við síðustu lægð fyrir rúmum tveimur árum. Ég er hætt að horfa á og tala um mig sem samgróning veikinda minna og horfi frekar á þetta sem tímabil sem ég veit að tekur enda. Þessi veikdini eru ekki ég, þau eru bara eitthvað sem ég geng í gegnum endrum og eins. Ekki aðeins það, heldur er ég hætt að reyna að baða út öllum örmum eins og drukknandi manneskja, öskrandi og hrópandi á stöðugum en vonlausum flótta undan veikindum mínum sem verða óneitanlega partur af vegferð minni í lengri eða skemmri tíma. Ég leyfi mér að eiga þetta tímabil. Nú veit ég að þetta gengur yfir ef ég er skynsöm, ef ég hlusta á sjálfa mig, ef ætlast ekki til þess að sigrast á þessu á einum degi. 

Áður, þegar ég fann fyrir ofsakvíða, ætlaðist ég til að ég yrði strax laus við hann ef ég tæki eina hugrakka ákvörðun og framkvæmdi hana. Ef það tókst ekki gafst ég upp, fullkomlega, og ákvað að ég væri bara svona. Þýðir ekkert að berjast á móti, ég lagast ekkert, ég loka mig bara inni og gleymi því að reyna að taka þátt.

Núna veit ég að þetta er ekki ég, þetta er bara eitthvað sem ég þarf stundum að berjast við.

Það er ekki þar með sagt að þessi lægð sé eitthvað auðveld. Það koma ennþá kvíðaköst þar sem ég held raunverulega að ég sé að deyja og dagar þar sem ég missi af allskonar í lífinu af því ég treysti mér ekki til að taka þátt. En núna eru þetta bara dagar. Ekki bara ég. Ég leyfi þessu tímabili bara að vera það sem það er. Suma daga finn ég að ég hef lægri þröskuld, og þá leyfi ég kvíðanum bara að vinna, þá fær hann bara að koma í veg fyrir að ég geri hluti sem ég veit að eiga ekki að vera neitt mál. En þá geri ég líka bara ráð fyrir því að í sömu viku komi dagar þar sem kvíðinn vinnur ekki og ég fer og geri hluti sem mér finnst erfiðir eða óþægilegir en ég get það af því ég hlusta á sjálfa mig og finn ég hef burði í það þann daginn. Suma daga veit ég að ég get meira, aðra daga finn ég að ég get minna. Og ég leyfi því bara að vera svoleiðis. Ég þarf ekki að vinna sigra á hverjum degi og stundum má ég jafnvel tapa, bara á meðan ég er skynsöm og læt kvíðann ekki vinna alltaf. Sumar vikur eru fínar, aðrar eru hræðilegar. Á meðan ég rói svo þennan ólgusjó fækkar öldunum smá saman þar til þær verða lítið annað en undiralda sem ég ræð vel við. Og ég leyfi mér að bíða róleg á meðan.

En hvernig lítur lægð út? Mér finnst ég aldrei eins einmana eins og þegar ég er mjög kvíðin og þegar ég ræð ekki fullkomlega við hugsanir mínar. Mér finnst hugsanirnar fáránlegar, mér finnst fólk ekki skilja mig og stundum finnst mér ég vera svo gjörsamlega ein inni í hausnum á mér að ég gæti allt eins verið ein í heiminum. Og ég fór að reyna að hugsa um fólk í kringum mig, hver ætli sé í sömu sporum og ég? Hversu margir? Get ég rennt yfir einhverja í huganum sem "líta út fyrir" að vera að berjast við það sama? Nei. Ég sat við ströndina á Spáni, eins og klisjukennt málverk, og velti þessu fyrir mér. Auðvitað get ég það ekki. Hvernig er ég að sýna öðru fólki að ég sé að berjast við lægð? Það er ekkert augljóst við það.

Svona lítur lægð út:

Lægð lítur út eins og hversdagurinn, eins og ævintýrin, eins og góðu stundirnar og vondu stundirnar. Lægðin er með öðrum, lægðin er ein. Hún er stífmáluð, ómáluð, sköpunarglöð, framkvæmdarlaus með öllu. Lægðin er allt og hún er ekkert.

Ef þú finnur þig í sömu sporum og ég, þar sem þú leitar eftir jafningja í frekar vonlausum aðstæðum, hættu að leita og mundu; þú sérð ekki lægðina, hún bara er.
Og hún fer.

Það væri lygi að segja að ég hafi alltaf hugsað svona. En ég er að segja ykkur frá því hvernig ég hef þroskast í baráttunni og ég vil hrósa mér. Í allri hugsanavillunni og stjórnleysinu sem ríkir inn í hausnum á mér hef ég aldrei haft jafn mikið vald á óreiðunni. Þó ég hafi sjaldnast yfirhöndina.

Katrín María


4x með Holly Jolly

Færslan er unnin í samstarfi við shine.is, varan er gjöf. (Og jú, það er víst mjög retro og kúl að vera með restar af gömlu naglalakki í myndatöku). Ég valdi mér þessa dásamlegu Holly Jolly augnskuggapalettu frá Be Bella af shine.is um daginn af því ég (sem á ALLT og allt of mikið af því) átti í alvöru ekki svona hlýtóna 35 lita palettu en varð auðvitað að eignast hana. Og okei, ég ætla að sýna ykkur hvað maður getur fengið mikla fjölbreytni út úr einni svona palettu og hvað það er frábært, en ég VERÐ líka að bæta því við í hundrað prósent einlægni og hreinskilni að þetta er strax orðin ein af mínum uppáhalds palettum hvað varðar gæði og blöndun á augnskuggum. Það er svo óeðlilega auðvelt að blanda litina og gera þá fallega að ég verð glöð bara að hugsa um það. Mikið sem það gleður mig að geta deilt því með ykkur.
En þá að fjölbreytninni: Fjögur FAB lúkk með Holly Jolly. 

1. The Firestarter
 Þessi förðun er SVO einföld en SVO falleg. Í alvörunni, tveir augnskuggar og búið. Lappað upp á með svörtum eyeliner og smá glimmeri í innri augnkrók og þú lítur út fyrir að hafa eytt heilum vinnudegi í þetta lúkk. 

2. The Classic Colleen
Þegar maður eignast augnskuggapalettu vill maður vita að hún bjóði upp á einfaldleika í hafsjó fjölbreytileika síns. Holly Jolly er engin undantekning. Ef þú vilt taka því rólega, taktu því rólega. Svona einföld lúkk má svo taka á næsta level með rauðum varalit og semalíusteinum vilji maður vera smá extra. 

3. The Plane Purple
Einfalt getur líka verið í lit. Hér gefur að líta förðun með einfaldri ljósbrúnni skyggingu sem er svo dýpkuð með djúpfjólubláum á ytri þriðjungi augnloks og dressuð upp með kampavínsgylltum í innri augnkrók. Einfalt, fljótlegt en effektívt. 

4. The Orange Overcast

 Annað persónulegt fave er þetta matta cut crease lúkk. Það skemmtilegasta við cut crease er að byrja á basic brúnni skyggingu og velja svo bara hvaða lit sem er úr palettunni sem þú ert í stuði fyrir og smella honum á augnlokið og út í væng. Klikkar aldrei!

Ég sver ég gæti auðveldlega gert aðra svona færslu með fjórum öðrum förðunum úr þessari sömu palettu. Spurning hvort það sé mission?
Þessi paletta er allavega nýtt möst í safninu mínu- ég ELSKA þegar gjafir hitta beint í mark. Svona eins og þegar maður kúkar svo heilbrigðum kúk að maður þarf ekki að skeina sér (en gerir það samt auðvitað til öryggis). Óvænt en dásamlegt. Full Face með Jessup Bamboo| Myndband

Færslan er unnin í samstarfi við Shine.is, burstarnir voru gjöf.

Ég fékk þessa súpernettu bursta að gjöf frá Shine.is um daginn. Mig hafði áður lúmskt kitlað eftir þeim því þeir eru á svo ótrúlegu (bókstaflega ótrúlegu) verði og mig hefur alltaf vantað eitthvað solid sett sem ég get bent fylgjendum á þegar þeir eru í burstaleit. Ég fæ ofboðslega oft spurningar um hvaða bursta byrjendur ættu að eiga, og ég á alltaf frekar erfitt með að benda fólki beint á uppáhaldssettin mín því þau eru lúmskt dýr, sérstaklega þegar maður er að byrja og vill bara fá tilfinningu fyrir hvað mann vantar. Ég ákvað því að gera förðun frá A-Ö með þessu setti til að sýna að það er hægt að fá allt sem maður þarf í einu settu, fyrir ótrúlega næs verð. 

Þetta myndband er alveg jafn útúrsýrt og allt annað sem ég geri. En notagildi burstsanna kemur samt glögglega í ljós í gegnum vitleysuna ;) 


Neon Peach

Vörur í færslunni voru annars vegar keyptar af höfundi og hins vegar gjöf til höfundar. Gjafir eru stjörnumerktar. 
Það var sól í mér um daginn og mér hafði áskotnast flippað glimmer frá fotia.is í litnum Abba sem mér fannst helst passa við einhverja óhefðbundna og skemmtilega förðun.
Úr varð þetta Neon ferskju freakyness. En ég notaði tækifærið og kafaði ofan í eina af mínum uppáhalds palettum, fyrstu Sleek palettuna sem ég keypti mér, Oh So Special iDivine palettuna (hún fæst held ég á haustfjord.is- allavega aðrar samskonar iDivine palettur). Þar eru tveir ferskjulitir sem ég er að verða búin að klára upp til agna. Ferskjulitaðir augnskuggar klikka ALDREI á sumrin. 

Augu:
Sleek iDivine Oh So Special palette (haustfjord.is)
Morphe 35S palette (fotia.is)
L.A. Splash Art Kit Tekt liner* (haustfjord.is)
Lit glimmer í ABBA* (fotia.is)
Primalash Professionals augnhár í stíl #167* (haustfjord.is)

Stjörnu og blóma glimmerið er eitthvað ódýrt ebay naglaskraut sem ég eignaðist fyrir hálfri öld en passaði fullkomlega við þessa förðun. Selfish Purple| Nabla

⇉ Nokkrar af vörunum sem minnst er á í færslunni voru fengnar að gjöf, þær verða stjörnumerktar ⇇
Karin hjá Nola (nola.is) sendi mér svo fallegan pakka um daginn, þar sem leyndust meðal annars nokkrar vörur frá ítalska merkinu Nabla. Ég gerði óskalista um jólin og hafði því fengið tvo Nabla augnskugga í jólagjöf frá Magga og varð strax sjúk í þá. Þar leyndist meðal annars þessi fjólublái augnskuggi, Selfish, sem er með þeim fallegri sem ég hef notað (hann er aðalnúmerið í förðuninni hér að neðan). 
Á myndunum að ofan sjáið þið kinnalitinn Nectar* og shading púður í Gotham*- ég er búin að nota þessar vörur í nánast allar farðanir síðan ég fékk þær, skemmtilegast af öllu finnst mér "prjónamynstrið" í púðrinu. Elska svona krúttlegt touch í vöruhönnun. 


Þessi Selfish augnskuggi sko! WHAT A PRODUCT. Á vörunum er ég svo með City Chic* fljótand varalit frá Modelrock (einnig af nola.is). Ég var líka að prófa Sweed augnhárin í fyrsta skipti, þetta er stíllinn Beroe 3D*.

Ég tók svo upp myndband þegar ég var að dunda við þessa förðun, þó ég hafi aðallega verið að fíflast.

2016/2017


Eitt ár enn.
Þegar ég lít til baka á færsluna sem ég skrifaði um áramótin síðustu fæ ég hlýju í hjartað. Þar minnti ég sjálfa mig á að hvað sem er getur gerst og því ákvað ég að fara væntingalaus inn í árið 2016 og frekar leyfa mér að njóta alls þess sem myndi gerast þetta ár því lífið er óvænt og uppátækjasamt alveg upp á eigin spýtur. Það sannaðist enn og aftur. Á ný fann ég mig í aðstæðum sem hefðu verið mér stórkostlega fjarlægar árið áður- en voru samt svo eðlilegur hluti af púsluspilinu eftir á að hyggja.

39 vikur
Byrjun ársins einkenndist af bið eftir nýjum erfingja. Erfingja sem ég var frá upphafi staðráðin í að væri stúlka og hafði því um jólin 2015, í samráði við Magga (og kannski helst að hans frumkvæði), gefið henni nafn án þess að hafa fengið kynið staðfest. Sem var ágætt, því hún lét sko ekki sjá sitt allra heilagasta fyrr en á viku 37, en ekki í janúar á 20. viku eins og áætlað var. Biðin gekk heilt yfir vel þó hún hafi á stundum verið erfið og þreytandi.
Árið var ekki með öllu skuggalaust því snemma árs fylgdist ég með bestu vinkonu minni kveðja ástina sína, eiginmanninnn sinn, í hinsta sinn. Maður getur aðeins fylgst með og ímyndað sér sársaukann, en aldrei almennilega skilið hann. Það er flókið að vera að upplifa eitt af bestu árunum sínum til þessa á meðan fleiri en einn og fleiri en tveir sem manni þykir vænt um eru að upplifa sitt versta. Það er eitthvað ósanngjarnt ójafnvægi í því. Um vinkonu mína hef ég bara engin orð, mér finnst hún hafa sýnt allt að því ómennskan styrk. Hún er mér eins og oft áður, fyrirmynd í svo miklu fleiru en hún mun nokkurn tíma vita.
Í lok maí kom Mía Salóme í heiminn. Að verða móðir var ekkert eins og ég hafði ímyndað mér. Mér fannst hún skrítin og ókunnug en samtímis elskaði ég hana svo heitt að mig verkjaði í hverja frumu þegar hún átti erfitt. Hún byrjaði á því að léttast of mikið, svo ég grét í heilan dag. Hún fæddist með lausa mjöðm og þurfti að vera í spelku í 6 vikur, svo ég grét í heilan dag. Hún fékk mjólkurofnæmi, upplýsingar þess efnis komu ekki fyrr en allt of seint sem úrslitaðist í vítiskvölum fyrir elsku barnið fyrstu vikurnar, þar til ég ákvað í samráði við sjálfa mig að taka út mjólkurvörur. Fram að því eyddi ég ófáum dögum grátandi, með grátandi barn í fanginu sem fann ekki nokkra ró á daginn. Mía Salóme hefur samt alltaf sofið allar nætur án þess að rumska, 10-14 tíma. Það hefur vissulega aldrei verið grátið yfir því.
Í dag er Mía Salóme mér hvorki ókunnug né skrítin. Hún er dásamleg. Alveg extra dásamleg (algjörlega hlutlaust mat). Hún er alltaf glöð, ótrúlega áhugasöm um heiminn og sífellt hissa á því sem hann hefur að geyma, hún ýlir þegar hún er glöð (Indriði myndi aldrei meika þetta ýl, Á HANN AÐ LAGA ÞAÐ!?), hún kvartar aldrei nema hún sé orðin verulega hungruð eða vansvefta (enda kláraði hún sennilega kvótann fyrstu 4 mánuði ævinnar), grætur aldrei nema hún meiði sig mikið, er miklu hrifnari af pabba sínum en mömmu og hlær eins og grátandi gamall maður.
Að verða mamma var, þrátt fyrir allt, miklu minna mál en ég bjóst við. Við þurfum samt kannski að taka með inn í dæmið að ég kann að mikla hluti gríðarlega fyrir mér og kvíða þeim. Ímyndunarafl mitt er greinilega mun svartara en krefjandi raunveruleikinn.
Eftir yndislegan vetur í kjallaranum hjá mömmu og pabba áttuðum við okkur á því að við þyrftum að búa barninu okkar heimili og því tókum við þá trylltu ákvörðun um að kaupa okkur hús. Það gerðum við innan við viku eftir að Mía Salóme fæddist. Húsið er á Flateyri. Ég hef skrifað allt um húsið og tilfinningar mínar gagnvart því hér. En Flateyri kemur á óvart og okkur hefur aldrei liðið eins mikið “heima”. Það var töluvert stökk að fara úr 56 fermetra íbúðinni okkar á Akureyri, yfir í 200 fermetra einbýli vestur á fjörðum- en hér er alltaf pláss fyrir góða gesti og okkur þrjú og það er dýrmætt.
Sumarið var vel nýtt með Míu, það var gott veður, við sóluðum okkur, Maggi sló garðinn og dútlaði við limgerðið af mikilli innlifun við hvert tækifæri og við nutum þess að koma okkur fyrir. Þegar hausta tók var Mía orðin þriggja mánaða og mér var ekki til setunnar boðið. Ég hóf því síðustu önnina í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst með eitt (þá vansælt) ungabarn á handleggnum. Einhvern veginn komst ég í gegnum þessa önn þrátt fyrir að vera mikið ein, en Maggi hefur þurft að vinna mikið erlendis og í öðrum landshlutum í lengri og skemmri tíma. Mamma og pabbi stukku glöð inn í á örlagastundum svo ég gæti sinnt náminu af eljusemi og ég segi skilið við Háskólann á Bifröst með 8 í meðaleinkunn, sem ég held ég geti bara verið stolt af. Annar hápunktur vetrarins var svo að fá að hitta loksins allar dásamlegu konurnar (og fólkið) sem ég hef verið í sambandi við í gegnum netheima í óratíma þegar ég mætti á Urban Decay viðburðinn í Reykjavík í nóvember. Ég er þakklát fyrir þessar flottu konur sem ég blogga með hér og allar þær sem ég hef kynnst í gegnum samfélagsmiðla síðustu 2 árin eða svo. Ég óska þess að ég fái að kynnast þeim miklu betur og hitta þær miklu oftar á nýju ári.
urban-decay-36 dsc00080urban-decay-29 dsc00042

Ég kveð þetta góða ár 2016 sátt og sæl og geri enn og aftur engar væntingar til ársins 2017. Sjáum hvað það hefur upp á að bjóða.
Katrín María


INGLOT| UNBOXING + FIRST IMPRESSIONS

Heilir og sælir kæru frændur, vinir og aðrir gestir!
Í vikunni fékk ég tvo sæta pakka frá Inglot og mig langaði að gera svona first impression myndband- þannig ég prufukeyrði nokkra þeirra í eftirfarandi myndbandi.
Endilega kommentið eitthvað skemmtilegt og jafnvel hendið í Subscribe ef þið eruð í stuði!


FIRST IMPRESSION| ALLSKONAR NÝTT

dsc00816 dsc00810
Hey kæru vinir. Ég fékk pakka frá fotia.is og ég var ekki í snapchat stuði svo mér datt í hug að gera first impression myndband þar sem ég prufukeyri vörurnar og segi álit mitt á þeim.
Ég er með skemmtilegan leik; kommentið undir myndbandið eitt eða tvö uppáhalds mómentin ykkar í myndbandinu.
Mitt uppáhalds móment var þegar myndbandið kláraðist.
One Shadow Wonder


2016-11-18_10-43-01
2016-11-18_10-44-23
Eftir að hafa séð Salóme og Birnu dúlla í fallegum monochrome förðunum síðustu vikur varð ég súper inspired og ákvað að skella í bleikt monochrome.
Þessi förðun gæti bókstaflega ekki verið einfaldari, þetta er einn augnskuggi (hot pink augnskuggi úr Urban Decay Electric palettunni) og svo örlítið af eyekandy glimmeri yfir. Toppað með augnhárum og voila! Engin eyeliner, ekkert aukavesen, bara one shadow wonder.
Svona lítur neon bleikur út í svarthvítu. Non existent.
Annars er myndband á leiðinni frá mér, first impressions af nokkrum vörum frá fotia.is, ég er búin að klippa það en hef enn ekki náð að uploada því á YouTube þrátt fyrir ca. 10 tilraunir. ONE DAY.
Katrín María


Skammdegið og ég| Saga af bata

Nú hef ég í fjögur ár vandað mig við að skrifa ekki um persónuleg kynni mín af geðsjúkdómum og hvernig þeir rændum mig tímabundið sjálfstæðinu og lífsviljanum. Ég hef talið mér trú um að ég ætli ekki að vera þessi týpa sem fer að deila vandamálum sínum með öllum heiminum. Eins og það sé einhver týpa? Ég veit vel að ástæður þess að fólk skrifar um geðsjúkdóma er ekki til að láta aðra vorkenna sér, ég veit manna best að það felst ákveðin þerapía í að skrifa sig í gegnum erfiða tíma. Eins veit ég að flestir, ef ekki allir, sem hafa skrifað um sínar upplifanir gera það með þá von í brjósti að það hjálpi einhverjum öðrum. Nú er ég bæði menntuð í og hef haft persónlueg kynni af geðrænum vandamálum og ég veit að allir koma til með að upplifa andlega vanlíðan á einhverjum tímapunkti á æviskeiðinu. Sumir aðeins stutt eða lítið, aðrir langvarandi og jafnvel alvarlega. Mér hefur verið illa við að skrifa um þetta því ég vil ekki hljóma eins og ég sé full sjálfsvorkunar eða ég þurfi einhverskonar viðurkenningu frá umheiminum fyrir að þora að tala um þetta eða hafa komist í gegnum þetta. Ég vil bara geta bent fólki sem spyr mig hvernig ég hafi náð bata á eitthvað haldbært. Maður er alltaf svolítið að forðast óþægilega hluti, og ég vil ekki vera “ein af þessum” sem skrifar opinberlega um eitthvað sem fólk veit hvort sem er svo mikið um. Ég hef sagt það þúsund sinnum áður og segi það einu sinni enn; af öllum fordómum sem ég hef upplifað gagnvart geðsjúkdómum um ævina eru mínir eigin fordómar mestir og verstir. Og þó ég finni mig knúna til að dæma sjálfa mig þá hef ég aldrei í lífinu fundið þörfina fyrir að dæma aðra í sömu sporum eða aðra sem deila sínum sögum. Þau mega eiga bágt, en ekki ég, ég hef enga almennilega ástæðu. Nú er ég í ákveðnum bata, ég er á betri stað en ég hef verið á í um 5 ár, og í fyrsta sinn finnst mér eins og ég geti kannski bætt einhverju við umfjöllunina. Mér hefur alltaf verið illa við að skrifa of langar færslur, aðallega í ljósi þess að ég veit að fólk nennir síður að lesa slíkar færslur. En þessi færsla verður löng, mjög löng. Ég vil frekar koma þessu almennilega frá mér, fyrir mig, og sjá þannig til þess að þeir fáu sem klóra sig í gegnum hana fái almennilega umfjöllun frekar en að reyna að stytta hana til að þóknast öðrum og koma ekki öllu frá mér sem ég vil segja.
Myndirnar eru bara til að gleðja og skreyta
Kvíði hefur stjórnað ákvörðunum mínum frá því ég var barn, án þess að ég hefði hugmynd um það. Árið 2011 flutti ég til Akureyrar til að fara í háskóla. Ég elskaði Akureyri, ég elskaði að búa ein með Magga og ég elskaði skólann. Það var ekkert að en samt tóku foreldrar mínir eftir breytingum á mér þegar ég kom heim í fyrsta jólafríinu. Þau töluðu ekki um það við mig fyrr en um vorið. Um vorið var ég á leið til heimilislæknis í allskonar skoðanir því ég hafði verið tíður gestur á bráðamóttökunni. Ég hélt nefnilega reglulega að ég væri að fá annan blóðtappa (eins og ég fékk þegar ég var 17 ára) og ég ímyndaði mér allskonar verki í löppum og lungum og hingað og þangað. Alltaf var ég skoðuð gaumgæfilega og svo send heim, stálhraust en andlega búin á því eftir að hafa eytt orkunni minni í geðshræringu þar sem ég taldi mér trú um að ég ætti aðeins nokkra daga eftir ólifaða. Ég skildi ekki afhverju ég var að fá þessa verki en ég vildi fara í allsherjar tékk hjá heimilislækni til öryggis. Mamma spurði mig áður en ég fór í tímann hvort ég ætlaði ekki að ræða við lækninn um kvíðann.
Ha? Hvaða kvíða? Ég er ekkert kvíðin. Hún benti mér góðfúslega á hvernig síðustu misseri höfði verið hjá mér, ég átti erfitt með allt, t.d. að hringja og panta tíma hjá þessum umrædda lækni, að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni, tannlækni, að fara út að borða, að fara í bíó. Já okei, kannski var þetta ekki eðlilegt. Var ég kvíðin? Hvernig gat ég verið í námi þar sem ég lærði daglega um geðsjúkdóma, einkenni þeirra og orsakir en ekki áttað mig á því að ég væri bullandi kvíðasjúklingur? Ég kom algjörlega af fjöllum. Og ég var ekki í afneitun, það bara hafði í alvörunni aldrei hvarflað að mér að það væri eitthvað óeðlilegt við það hvernig ég hagaði lífi mínu.
Úr varð að ég var skikkuð til sálfræðings af heimilislækninum mínum. Ég man ég grét allan tímann hjá heimilislækninum því ég vildi ekki fara til sálfræðings, það eitt og sér var of kvíðvænlegt og virtist í mínum huga óyfirstíganlegt. Hún hafði byrjað á að segja að ég þyrfti sennilega að komast á lyf sem fyrst til að komast yfir erfiðasta hjallan því veikindin voru orðin það svæsin að þau röskuðu daglegu lífi mínu umtalsvert. Ég harðneitaði lyfjunum, ekki af stolti, heldur vegna kvíða. Heilsukvíðinn var orðinn þannig að ég var hrædd við hverskonar lyf og mér fannst geðlyf allt of mikið inngrip. Hún sagði að ég kæmist ekki í gegnum þetta hjálparlaust og að hún myndi láta sálfræðing hringja í mig á næstu dögum. Ég fór grátandi út frá henni, ég var ofboðslega sár og reið yfir að missa svona stjórnina. Ég hafði komist í gegnum síðustu vikur og mánuði með því að forðast allt sem mér þótti erfitt eða kvíðvænlegt og þannig vildi ég helst halda því. En að sama skapi hafði sú hegðun orðið til þess að ég varð veikari en nokkru sinni fyrr.
Ég gat ekki verslað í matinn, það var of erfitt að fara í búð þar sem mikið var af fólki og möguleikar á allskonar uppákomum. Ég gat ekki farið út að borða eða í bíó því það að vera föst á einhverjum stað í x langan tíma olli mér mikilli vanlíðan. Ég nennti orðið sjaldan að hitta vinkonur mínar eða fara með þeim út því það var auðveldara að vera heima. Og að lokum endaði það þannig. Ég var alltaf heima. Að vera heima var auðveldara en að taka ákvörðun um að fara út og þurfa að hugsa um allt sem mögulega gæti gerst eða komið uppá á meðan ég væri úti. Hvað ef mér yrði óglatt á meðan ég væri að bíða eftir matnum á veitingastað og ég þyrfti að fara út áður en maturinn kæmi og gæti ekki borgað? Hvað ef fólk myndi setjast sitthvoru megin við mig í bíó og mér yrði skyndilega flökurt og gæti ekki komist í burtu? Kannski myndi ég æla á gólfið eða í fangið á mér. Hvað ef ég færi í Glerártorg og væri komin langt frá útidyrunum og þyrfti skyndilega að kasta upp og myndi bara æla á gólfið? Mér varð óglatt við tilhugsunina. Þannig lýsti minn kvíði sér. Ég var hrædd við að vera innilokuð, við að vera langt frá útgönguleiðum, við að vera föst einhverstaðar á ákveðnum tíma og í flestum tilfellum var ég hrædd um að kasta upp (sem er mjög algengt með kvíðasjúklinga, þ.e. hræðsla við uppköst, ekki raunverulegu uppköst).
Stundum leið mér betur. Stundum ákvað ég að nú gæti ég þetta. Nú færi ég út að borða. Ég man eitt sinn þegar ég hafði ekki val. Maggi átti afmæli og mamma hafði hringt að vestan og boðið okkur út að borða. Hún var búin að panta borð fyrir okkur tvö á veitingastað á Akureyri og hafði látið þau fá kortanúmerið sitt. Við þurftum bara að mæta, panta okkur, njóta og láta svo þjóninn vita að þau höfðu fengið kortanúmerið hennar og þannig yrði borgað. Dagurinn var erfiður, ég hugsaði um þetta allan daginn og hvað það yrði erfitt að þurfa að vera þarna frá því klukkan sjö og þar til við yrðum búin að borða, en ég skyldi láta mig hafa það á afmælisdaginn hans Magga. Við mættum á staðinn og pöntuðum. Mér fór strax að líða undarlega. Var þetta smá magaverkur sem ég fann fyrir? Hmm. Skrítið. Er mér kannski pínu flökurt? Já ég er ekki frá því, ég finn fyrir smá ógleði. Ætli ég sé að verða veik? Ég sat áfram kjurr og velti fyrir mér þessum litla magaverk á meðan við biðum eftir matnum. Var hann að ágerast? Ó nei. Hvað ef ég myndi kasta upp inni á veitingastaðnum? Ég fór að anda hraðar og svitna í lófunum. Ég fann að ógleðin versnaði. Hvað á ég að gera? Ég þarf að sitja hérna þar til maturinn kemur, borða hann og láta svo þjóninn vita hvernig á að borga. Hvað ef ég æli áður en ég næ að ljúka þessu öllu af? Ógleðin hélt áfram að versna. Eftir því sem ég hugsaði meira um allt sem gengi ekki upp ef ég myndi kasta upp þá og þegar því verr leið mér í maganum. Maturinn kom á borðið. Ég hafði enga matarlyst lengur. Ég sagði Magga að mér liði hálfilla, hvort hann gæti drifið sig að borða. Ég sat í nokkrar mínútur í viðbót en þá gat ég ekki meir. Ég sagði Magga með tárin í augunum að mér væri svo flökurt að ég þyrfti að setjast út í bíl, mér þótti ofboðslega leiðinlegt að geta ekki setið og notið þess að borða með honum á afmælisdaginn. Og út fór ég og sat í bílnum þar til Maggi var búinn að borða og borga. Öll ógleði horfin eins og dögg fyrir sólu og það eina sem sat eftir var djúp sorg og óbeit á sjálfri mér fyrir að geta ekki gert eitthvað eins einfalt og að fara út að borða.
Þetta er aðeins ein dæmisaga af þúsund. Svona voru allir dagar þar sem ég þurfti að gera eitthvað. Svona voru búðarferðir, bíóferðir, heimsóknir, tímar eða próf í skólanum, læknisheimsóknir, göngutúrar, kaffihúsaheimsóknir. Allt sem ég þurfti að gera varð á endanum óyfirstíganlegt og ef ég hafði einhvern minnsta möguleika á að forðast hlutina þá gerði ég það undantekningarlaust. Að lokum hætti ég bara að reyna. Ég hitti ekki ættingja, ég svaf ekki á næturnar, ég mætti ekki í skólann, ég verslað ekki í matinn, ég fór ekki út með ruslið, ég fór bara ekki út. Og þetta var hræðilegt. Mér leið ömurlega, ég var að missa af lífinu og litla notalega íbúðin mín var orðin að fangaklefa sem ég hafði óbeit á. Mér leið ömurlega þar inni en ég var þess fullviss að það sem beið utan hennar væri margfalt verra og því væri öruggast að halda sig bara inni.
Á þessum tímapunkti hringdi sálfræðingurinn í mig og sagðist hafa verið í sambandi við heimilislækninn minn. Hún bauð mér að koma til sín og ég jánkaði því samviskusamlega, enda vissi ég að ég hefði þrjá sólahringa til þess að finna afsökun fyrir að mæta ekki í tímann. Það varð þó úr að ég áttaði mig á því að ég þyrfti nauðsynlega að fá hjálp, ég var búin að mála mig algjörlega út í horn og þetta var eitthvað sem ég þurfti að gera. Ég skal segja ykkur það að það þurfti alla þá orku og allt það hugrekki sem ég átti, hvern einasta dropa, til að hafa mig út um dyrnar og til sálfræðingsins. Ég man að fæturnir á mér voru eins og hlaup, ég gat varla gengið á þeim. Ég hafði oft heyrt um slíkt en nú fyrst skildi ég samlíkinguna, hvert skref var barátta við að halda sér frá því að falla til jarðar (bókstaflega). Á endanum komst ég á leiðarenda og hún bauð mér sæti. Ég sat skjálfandi í stólnum, reyndi að brosa kurteisislega og laumuhataði sjálfa mig fyrir að hafa látið plata mig út í þetta. Ég man ekki hvað hún sagði við mig næst, það var eitthvað einfalt, eins og að spyrja hvernig ég hefði það eða eitthvað slíkt og ég man bara að ég fór að gráta. Og svo grét ég held ég allan tímann þangað til ég labbaði út, þúsund tárum léttari en engu nær bata. Og þarna varð vont verra. Ég hélt áfram að hitta sálfræðinginn og fljótlega áttaði ég mig á hinu skelfilega. Ég hafði eytt allri orkunni minni, öllu hugrekkinu mínu og óteljandi tárum í að koma og tala við þennan sálfræðing, en hún gat ekki læknað mig. Og mér fannst það hræðilegt. Til hvers var ég að leggja þetta allt á mig ef hún gat ekki læknað mig? Við tók langt um verra tímabil, skammdegið heltist yfir og ég fann í fyrsta sinn fyrir viðbjóðslegu vonleysistilfinningunni sem fylgir þunglyndi. Og þarna var botninum náð. Af allri þeirri vanlíðan sem kvíðinn hafði ollið mér var ekkert verra en þessi tilfinning; að langa ekki að vera til. Og þarna erum við komin á staðinn sem ég vildi fyrst og fremst ræða í þessari færslu. Langt intro, ég veit.
Kvíðinn hafði þegar rænt mig sjálfstæðinu. Ég gat ekkert sjálf, ég gat ekki verslað í matinn eða gert hluti sem ég hafði áður haft mikið gaman af eins og að fara í bíó eða út að borða. En kvíðinn rændi mig ekki lífsviljanum. Ég gat áfram sinnt aðal áhugamálinu mínu, sem var förðun og bloggið mitt. Það hafði bjargað mér á hinum endalausu andvökunóttum og hjálpað mér að jafna mig þegar ég var lítil í mér eftir skelfilegu kvíðaköstin sem ég átti það til að fá. En þetta nýtilkomna þunglyndi þurrkaði gjörsamlega út áhuga minn á öllu. Mig hefur aldrei langað til að deyja, en á þessum tímapunkti óskaði ég einskis heitar en að þurfa ekki að vera til. Ég man eftir dögum þar sem ég sat í sófanum mínum grátandi heilu dagana á meðan Maggi var í vinnunni. Ég snerti ekki tölvuna mína, ekki símann minn, ekki förðunarvörurnar mínar. Ég sat bara, starði út í loftið og grét. Ég grét þangað til mig sveið í augun, þangað til mér fannst eins og hausinn á mér myndi springa og ég græt jafnvel núna að rifja þetta upp því mér finnst ótrúlegt að ég sé ekki þarna lengur. Í þessum sófa, grátandi, því ég hélt að lífið gæti ekki mögulega haldið áfram. Og samt sit ég hér fjórum árum seinna að skrifa um þetta og þarf að grafa djúpt til að rifja upp þessa vanlíðan því í dag er hún mér svo fjarlæg.
Að nokkrum vikum liðnum náði ég áttum. Ég áttaði mig á því að sálfræðingurinn ætlaði ekki og átti ekki að lækna mig. Hún var aðeins þarna til að gefa mér verkfæri svo ég gæti læknað mig sjálf. Ég nýtti mér þau og laug mig frá kvíðanum. Ég laug því að mér á hverjum degi fyrir framan spegilinn að mér þætti svo auðvelt og gaman að vera til. Jájá, þú ert að fara til læknis, ekkert mál, það verður bara gaman að hitta fólk! Jújú við skellum okkur í bíó, mér finnst hvort sem er ekkert mál að taka spontant og skemmtilegar ákvarðanir, ekkert mál! Þetta sagði ég í alvörunni upphátt og leið eins og fávita í hvert sinn. En svona liðu dagarnir, miserfiðir og flestir mjög erfiðir, þar til að með vorinu var ég komin yfir erfiðasta hjallann og lífið komið í nokkuð eðlilegar skorður á ný. Kvíðinn er vissulega aldrei læknaður og ég berst við hann enn í dag, en hann háir mér ekki eins mikið og hann vinnur æ sjaldnar í rökræðum við sjálfa mig. Kvíðinn má kitla mig að vild ef blessað þunglyndið fer á einhvern svartan, sólarlausan stað og lætur aldrei sjá sig aftur.
En því miður var ég ekki sloppin. Sumarið leið og mér leið vel, ég hafði ásættanlega stjórn á kvíðanum og gat að mestu gert það sem mig langaði til. Með skammdeginu fór ég svo að finna kunnuglega tilfinningu innra með mér. Vonleysið. Andskotinn, ég sem var búin að vinna mig út úr þessu, ég sem hafði fundið að það væri hægt að líða vel og svo ætlaði ég bara aftur ofan í þessa vonlausu og ömurlegu gryfju sem þunglyndið er. En þetta er pínu eins og að vera í frjálsu falli, stanslaust, með milljón haldreipi þjótandi hjá á ógnarhraða en maður nær ekki taki á neinu þeirra. Og niður fór ég. Veturinn leið og mér leið almennt illa, lífið skorti tilgang og ég gerði hlutina af illri nauðsyn og engu meir. Ég nýtti verkfærin sem sálfræðingurinn og námið höfðu gefið mér til að halda mér á floti en það var allt og sumt. Það lagaðist með vorinu, hægar en venjulega og nýtt sumar kom nema að þessu sinni fylgdi því ekki fullur bati. Því fylgdi líka hræðsla. Ég var orðin logandi hrædd við skammdegið, það er svo vont að langa ekki að vera til og ég var ekki tilbúin í að reyna að harka annan vetur af mér á hnefanum. Mig langaði bara að líða vel. Mér leið ekkert sérstaklega vel þetta sumar, en þó hvergi nærri eins illa og um veturinn.
Svo rann næsti vetur upp, haustið var bærilegt en mér versnaði með hverri viku. Að lokum var þunglyndið svo svæsið að mig langaði að leggjast í dvala þar til veturinn væri búinn, raunar langaði mig að leggjast í eilífan dvala því ég trúði ekki einu sinni að sumarið gæti hjálpað mér upp úr þessari ógeðslegu holu. Ég man að stundum fannst mér eins og ég væri að drukkna, í alvörunni. Tilfinningin var eins og allur líkaminn og öll vit væru full af þykkum svörtum reyk og mér fannst ég ekki geta andað eða staðið eða sitið eða legið eða opnað augun eða lokað augunum eða verið til. Mér fannst ég ekki geta verið til mínútunni lengur. Og ég hef aldrei verið eins hrædd á ævinni eins og þegar þessi tilfinning helltist yfir mig. Ég man að stundum hringdi ég í mömmu á öllum tímum sólahringsins af því mér fannst ég ekki geta meir og ég var ráðalaus. Ég hringdi bara og grét og sagðist ekki geta meir, að ég skildi ekki hvað væri að gerast eða af hverju en ég vissi bara að mér liði svo illa að ég gæti ekki andað. Í öll skiptin sagði hún mér að fara upp á bráðageðdeild og í öll skiptin lét ég kvíðann stjórna mér og fann allar mögulegar leiðir til að komast í gegnum þessi augnablik án þess að leita mér hjálpar. Þetta var versta mögulega leiðin til að takast á við þetta og ég vildi óska þess svo heitt að ég hefði farið strax og fengið hjálp. Svona leið veturinn, sá versti sem ég man eftir og sá versti sem ég hef upplifað hingað til. Þegar tók að vora var batinn ekki eins hraður og áður. Ég var gjörsamlega komin með ógeð á sjálfri mér, íbúðinni minni, Akureyri og eiginlega bara lífinu.
Svo kom að því að við ákváðum að flytja vestur á Ísafjörð rétt fyrir seinasta haust. Fyrstu vikurnar gengu vel og mér leið vel, ég var sannfærð um að þetta væri kannski bara það sem ég þurfti, smá tilbreyting. Mér leið svo ennþá betur að sjá hvað Maggi var ánægður í vinnunni og léttur í lund enda átti hann það skilið eftir að hafa staðið eins og klettur við hliðina á mér þrjá dimma vetur í röð. Auk þess varð ég ólétt og það varð eitthvað alveg nýtt og spennandi til að hlakka til. Þetta yrði allt í besta lagi.
1435426531260
Nei. Aldeilis ekki. Það þarf meira en bara spennandi tíma og tilbreytingu til að brjóta þunglyndi á bak aftur. Skammdegið kom og vonleysið með. Þarna var mér allri lokið, ég var komin á algjörlega nýjan stað, var nálægt fjölskyldunni minni og á leið í algjörlega nýtt hlutverk í lífinu, móðurhlutverkið. Samt tókst þunglyndinu að finna mig. Ég reyndi að hunsa það, vonaði að þetta væru bara létt þyngsli á meða ég væri að venjast styttri dögum og meira myrkri. Svo sátum við mamma saman í sólstofunni einn daginn eins og svo oft áður og hún spurði mig hvernig mér liði. Ég man að ég fór að gráta, því þarna þurfti ég ekki aðeins að viðurkenna það fyrir sjálfri mér, heldur henni líka. Mér leið illa. Mjög illa og ég vissi ekki af hverju. Ég var ekki lengur spennt fyrir náminu sem ég var að byrja í, ég var ekki spennt að eignast þetta barn og mig langaði, enn og aftur, að hætta að vera til. Áhugaleysi mitt gagnvart lífinu var algjört. Aftur.
Það kom að því að ég þurfti að segja ljósmóðurinni minni frá þessu. Ég fór í mæðraviðtal til Reykjavíkur og mamma var með. Þarna var ég spurð um andlega líðan og ég neyddist til að segja henni að ég væri að berjast við þunglyndi og ég tengdi það helst við veturna, núna liði mér illa og ég væri ekki beint spennt fyrir komandi tímum. Hún sagði að það væri mikilvægt að ég væri í viðtölum hjá sálfræðingi á meðgöngunni til að minnka líkur á fæðingarþunglyndi og svo ég gæti hugsað um barnið mitt þegar það kæmi, en hana langaði líka að mæla nokkur gildi í blóðinu hjá mér. Þar á meðal D vítamín. Hún sagði mér að inntaka D vítamíns á meðgöngu væri mikilvæg og ég ætti að byrja að taka inn 2000 einingar á dag (eins og er iðulega mælt með við óléttar konur).
Í vikunni eftir þetta viðtal vaknaði ég einn daginn og mér leið mjög skringilega. Ég settist upp í rúminu og skildi ekki hvað var að gerast. Mér fannst pínu eins og ég væri drukkin eða skökk, mér leið ótrúlega vel og það fyrsta sem ég hugsaði var; þetta verður góður dagur. Og þá áttaði ég mig á því að svona hafði mér ekki liðið í einhver fimm ár. Öll þau skipti sem ég hélt mér hafi liði vel, voru ekkert í líkingu við þetta augnablik. Besta orðið sem ég á til að lýsa þessari tilfinningu er venjulegt, mér leið venjulega. Og það er svo fyndið að þetta hálfglataða og einfalda orð geti lýst svona ánægjulegu augnabliki, en þannig var það nú samt. Ég gerði ekki mikið úr þessu, ég skildi ekki afhverju mér leið svona vel en ég ákvað bara að njóta. Um kvöldið var ég kvíðin að fara að sofa því ég hafði notið þess svo að vakna um morgunin og ég kveið því að vakna daginn eftir og allt væri farið í sama horf. En svo vaknaði ég daginn eftir og sá dagur byrjaði eins og svona hélt þetta áfram þar til á fimmta degi þegar ég fór virkilega að spá hvað gæti verið í gangi. Þá mundi ég allt í einu eftir D vítamíninu, ég hafði verið að taka D vítamín í rúmar 2 vikur og ljósmóðirin hafði sagt við mig að í einhverjum tilfellum gæti D vítamínskortur orsakað þunglyndi, sér í lagi svona árstíðarbundið þunglyndi, enda skortir okkur sólina á Íslandi og erum langt í frá eins dugleg að borða fisk og á árum áður.
Ég hafði ekki tengt þetta tvennt saman fyrr en þarna, á fimmta degi af venjulegri líðan. Ég gat ekki verið viss um að þetta væri ástæðan en ég hélt bara áfram að njóta, skíthrædd á hverju einasta kvöldi að dagurinn eftir yrði dagurinn þar sem allt félli aftur í sama horf og þunglyndið helltist yfir á ný. En sá dagur kom aldrei. Síðan er liðið heilt ár, síðan hefur liðið heill vetur og nýtt skammdegistímabil byrjað, og dagurinn hefur enn ekki komið.
Ég fór aftur til ljósmóðurinnar mánuði eftir að hún benti mér á að taka D vítamín, ca. þremur vikum eftir að mér fór að líða venjulega. Þar fór hún í rólegheitum yfir blóðprufurnar mínar og stansaði svo snarlega við einar niðurstöðurnar þar sem hún sá að ég hafði mælst með svæsin D vítamínskort. Þarna varð ég þess eiginlega fullviss að skammdegisþunglyndið hafi farið út af D vítamín inntökunni, ég hafði verið með mikinn skort og líkaminn var að bregðast svona vel við D vítamíninu. Skorturinn var það mikill að ég var sett á ofurskammt af D vítamíni. Ráðlagður dagsskammtur er 600 einingar, ég hafði verið að taka 2.000 einingar síðan ég talaði við hana síðast en átti að fara alla leið upp í 10.000 einingar til að ná mér upp sem fyrst, bæði fyrir mig og Míu. Ég tók 10.000 einingar í 6 vikur og fór svo aftur niður í 2.000 einingar (ofskammtur af D vítamíni getur verið skaðlegur fyrir fóstur ). Nú tek ég daglega 4.000 einingar af D vítamíni og þori ekki fyrir mitt litla líf að hætta því því ég ætla ekki að gefa skammdeginu færi á mér aftur svo auðveldlega.
Það sem ég vil koma til skila er hvernig ég losnaði við mitt skammdegisþunglyndi. Ég var ótrúlega heppin að mitt þunglyndi var ekki af alvarlegri orsökum en D vítamínskorti sem var auðvelt að kippa í lag, það eru alls ekki allir svo heppnir og ég myndi aldrei reikna með því að við læknumst öll af þunglyndi við að taka inn D vítamín. Hins vegar hef ég mikið verið spurð undanfarið hvernig ég komst yfir skammdegisþunglyndið (eftir að hafa minnst á það opinberlega á ýmsum miðlum) og mér hefur þótt erfitt að segja fólki frá því af því mér finnst lausnin eitthvað svo bjánaleg. Ef einhver hefði sagt mér, þegar ég hafði engann lífsvilja, gat ekki andað af vanlíðan og grét stanslaust í marga daga, að ég þyrfti bara að taka inn D vítamín, hefði ég orðið virkilega sár. Geðsjúkdómar eru erfiðir og alvarlegir og það er sárt þegar fólk gerir ráð fyrir að á þeim sé einföld lausn; farðu í göngutúr, hresstu þig við, hittu fólk, taktu vítamín. Mér fannst D vítamínið algjörlega falla í þennan plebbalega flokk af glötuðum hlutum sem fólk mælir með gegn þunglyndi og mann langar síst að heyra þegar maður er bókstaflega að drukkna. Síðan hef ég lært að D vítamín flokkast ekki einungis sem vítamín heldur einnig sem hormón- ef ójafnvægi er á hormónum í líkamanum gefur auga leið að það hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Mig langar bara að segja að ef þú berst við árstíðabundið þunglyndi myndi ég ekki hika við að láta reyna á að taka D vítamín, það er alls ekki víst að það breyti neinu, en í versta falli ertu að fá mikilvægt vítamín sem minnkar líkur á allskonar alvarlegum sjúkdómum eins og brjóstakrabbameini, ristilkrabbameini, beinþynningu, MS, sykursýki, sjálfsofnæmissjúkdómum, liðagigt, óútskýrður háþrýstingi o.fl. D vítamín er alltaf mikilvægt, sérstaklega fyrir íslendinga sem fá litla sem enga sól og fá ekki næstum því nóg D vítamín úr fæðunni.
Maður ætti að taka D vítamín samviskusamlega, daglega út lífið (að mínu auðmjúka mati minnst 2.000 einingar á dag). Kannski lyftir þetta þér upp úr skammdeginu og kannski ekki, kannski tekur það tíma og kannski ekki en worst case scenario er heilbrigðari líkamsstarfssemi (sem er bara alls ekki vont scenario).
Að lokum vil ég taka skýrt fram að það eru ekki allir dagar frábærir og það koma vissulega dagar þar sem mér líður illa eða finnst lífið erfitt, eins og hjá öllum. En það er bara miklu eðlilegri líðan heldur en vanlíðanin sem fylgdi þunglyndinu og bara heill annar handleggur. Lífið er ekki eintómt sólskin en ég er þakklát á meðan ég fyllist ekki af svörtum reyk og vona að það haldist þannig sem lengst. Á meðan lofa ég sjálfri mér að njóta.
Katrín María