Önnur tilraun| Electric Palette

Ég gerði aðra tilraun. Það var gaman!Já ég gefst ekkert upp á að nota þennan græna lit- hvað er smá myglublær milli vina?
Í alvörunni, Harmony pressed pigment frá Hot Makeup sem er þarna ofan á litnum á miðju augnlokinu er alveg ultimate fave. Hann er æði til að "pop shit up".

Katrín María


Tilraunastarfssemi| Electric Palette

Fyrir þá sem ekki fylgja mér á snapchat (katrinmariaa), sem væri reyndar ótrúleg skrítið- hver ertu eiginlega? þá fékk ég senda svo fallega gjöf um daginn.
Gjöfina fékk ég óvænt alla leið frá Luxemborg frá Svanborgu Signý (svannymua á snap) sem ég er svo heppin að hafa kynnst í gegnum netheima og höfum við ræktað einstaka vináttu með okkur á skömmum tíma. Dýrmætt þetta internet.

En já að gjöfinni! Ég fékk sko mikið fallegt, en stjarna pakkans (fyrir utan póstkortið sem ég fékk) var klárlega Electric Palettan frá Urban Decay sem ég hef þráð í áraraðir (algjörlega grínlaust). Ég fór líka að grenja, eðlilega.
Palettan er dásamleg, ég vildi óska þess að ég hefði tekið myndir ÁÐUR en ég réðist á hana, en hún er ekkert síður falleg svona smá potuð. 
Ég prufukeyrði palettuna semsagt á snapchat og tók örlítið of stórt upp í mig. Ég myndi líklega framkvæma þetta aðeins öðruvísi svona eftir á að hyggja en litirnir eru þó óneitanlega fallegir. 

Palettan var allt sem ég óskaði mér og það var unaður að leika með hana. Hlakka til að prófa fleiri liti og fleiri farðanir með henni.

Annað sem er í uppáhaldi er Svanný, nennið þið að fylgja henni ef þið gerið það ekki þegar, því hún er klár og fyndin, snillingur í förðun og lífskúnstner með meiru.
Þið finnið hana:
Hér á SNAP: svannymua
Hér á INSTAGRAM
Hér á FACEBOOK
Hér á BLOGGINU

Katrín María


Farðabardaginn| Rimmel vs. Rimmel


Ég ákvað að bera saman þessi tvö meik frá Rimmel. Meik sem bjóða upp á ólíka eiginleika en ég fæ oft spurningar um þau og hvernig ég fíli þau/hvoru ég mæli með. 

Rimmel Match Perfection (Blátt lok) >>
Þessi farði gefur miðlungsþekju, er léttur og veitir ljóma. Ég er mjög hrifin af honum, hann lítur fallega út á húðinni og er bara akkúrat svona farði sem hentar þurru húðinni minni (og ljómaperranum innra með mér). Hann er helst til klístraður við ásetningu svo maður þarf annað hvort mikla þolinmæði í að bíða eftir að hann þorni eða að setja hann með púrði (sem ég reyni yfirleitt að gera ekki- en finnst nauðsynlegt í þessu tilviki). Annað sem ég gæti sett út á er sú staðreynd að það þarf svolítið að hafa fyrir því að blanda honum inn í húðina. Ég finn ekki mikið fyrir honum á húðinni og hann ýkir ekki misfellur eða þurrk sem er frábært. Þekjan í honum er meiri en nóg fyrir mig, en það er kanski ekki að marka- ég vill alltaf frekar minni þekju og meiri hyljara hvort sem er. Það er þó hægt að byggja þennan vel upp. 

Rimmel Lasting Finish (Rautt lok) >>
Þessi farði er þyngri, á að endast í 25 klst. (trúum við því ekki allar?) og gefur fulla þekju. Ég var hrædd um að hann yrði of þungur fyrir mig og þurru húðina mína en svo er alls ekki. Hann er í miklu uppáhaldi þessa dagana og ef maður vill ekki of mikla þekju getur maður vel stjórnað henni með t.d. blautum förðunarsvampi (ég vel yfirleitt Beautyblender eða Real Techniques svampa). Þar sem þessi farði er þurrari en sá að ofan þarf ég persónulega ekki að setja hann með púðri. Annar fylgikvilli er svo að hann sest svolítið í misfellur á þurri húð og lítur ekki alveg eins vel út á húðinni minni og Rimmel Match Perfection. Þetta eru þó bara hlutir sem ég tek eftir í mjög góðri birtu upp við mjög öflugan spegil svo almennt truflar það mig ekkert. Ég get ímyndað mér að hann sé enn dásamlegri á olíumeirihúð en minni en hann er þó klárt uppáhald hjá mér líka. 

Samanburður >>
Ég er ánægð með báða farðana, sér í lagi því þeir eru á góðu verði og fást á Íslandi sem er dásamlegt. Match Perfection lítur betur út á húðinni minni því ég er með þurra húð, en Lasting Finish er fljótlegri og auðveldari í notkun, gefur meiri þekju og endist lengur. Fyrir mig væri blái farðinn meiri daglegur farði á meðan rauði farðinn hentar betur við tilefni þar sem ég vill mikla og góða endingu og fullkomna þekju. Katrín MaríaLjóminn er góður
Hér að ofan gefur að líta uppáhalds highlighterana mína þrjá. Moonstone frá Becca, Mary-Lou Manizer frá theBalm og Stila Highlighter Duo. Þessa dagana nota ég Moonstone allra mest- en fyrir það varð Mary-Lou yfirleitt fyrir valinu. 


Moonstone >>
er ljósastur, hann er gulleitur en samt hvítari en Mary-Lou Manizer og ég hef persónulega meira gaman af highlighterum sem fara meira út í hvítt en gult svona dagsdaglega, finnst þeir virka náttúrulegri af einhverjum ástæðum. Moonstone gefur ljóma sem virðist nánast koma innan frá; náttúrulegan og látlausan en nógu áberandi fyrir ljómasjúkling eins og mig. 


Mary-Lou Manizer >> 
er eins og fyrr segir aðeins meira út í gult og auk þessu eru svolítið meira "chunky" ljómaagnir í honum, næstum glimmer sem gerir hann aðeins meira disco en Moonstone en hann er engu að síður einn sá besti í bransanum til að fá alvöru glow- og ég fer t.d. ekki út á lífið án hans. 


All-Over shimmer duo frá Stila >> 
er svo enn eldra uppáhald en ljósi tónninn í því er meira út í bleikt á meðan sá dökki er meira svona bronze-godess týpan. Ég hef alltaf notaði ljósa litinn meira því ég er með ljósa húð en svo er fallegt að blanda þeim saman þegar maður nær sér í tan. Ég hef ekki mikið gripið í þennan eftir að ég fór út í gultóna/hvítu highlighterana, líklega vegna þess að þeir tóna betur við húðina mína sem hefur gula undirtóna. 

Er ykkar uppáhald á listanum? Eða er eitthvað undur þarna úti sem ég er að missa af? 

Katrín María 


Notalegir hlutir| Current Favourites
Mínir uppáhaldshlutir þessa dagana eru held ég í fyrsta skipti allt vörur sem seldar eru á Íslandi. Sjaldgæft, en dásamlegt auðvitað hvað úrvalið hefur blómstrað undanfarið. 

Rimmel Lasting Finish >>
Þessi farði, sem ég keypti í Hagkaup í Skeifunni, hefur verið óvænt uppáhald síðustu misseri. Ég hélt hann yrði of þungur fyrir þurru húðina mína þar sem hann á að endast extra lengi og gefa fulla þekju (ég fíla yfirleitt léttari farða) en það er auðveldlega hægt að nota hann í litlu magni og svo er hann enn léttari með blautum beauty blender. Reikna með að hann komi vel út á olíumeiri húð líka.

Maybelline Lash Sensational >>
Þessi maskari er nokkuð dásamlegur. Við fyrstu kynni fór hann beint ofan í skúffu og var ekki hreyfður í langan tíma en svo gaf ég honum annan séns þegar ég var búin með Grandiose frá Lancome, sem er annar uppáhalds maskari og þá kolféll ég fyrir honum. Hann er líka aðeins gæfari við veskið svona miðað við Grandiose sem er heppilegt. Góð blanda af þykkt og lengd í þessum. Maybellin fæst í Hagkaup og víða í apótekum. 

MAC Rose Pigment >>
Þetta pigment frá MAC sem ég fékk í jólagjöf er á einhverju öðru leveli, ég er gjörsamlega sjúk í það. Ég gerði nýlega þessa förðun með því sem ég var mjög hrifin af og fékk góðar viðtökur. Það er engin leið að fanga fegurðina alla á mynd en þið verðið bara að treysta orðum mínum þegar ég segi að það sé með þeim fallegri pigmentum sem ég hef augum litið. 

Skindinavia Finishing Sprey >>
Ég var svo heppin að fá senda prufu af þessu spreyi frá Evu á lineup.is fyrir jól og það mætti halda að ég hafi drukkið prufuna, ég kláraði hana svo fljótt. Ég var því himinlifandi þegar ég fékk spreyið í fullri stærð í jólagjöf. Það án gríns þrælvirkar til að láta förðun endast lengur, ég sver það! Svo hjálpar það til við að losna við púðuráferð sem er ekki vondur díll fyrir þurrhúðunga eins og mig. 

ArtDeco Varablýantur nr. 80 >>
Ég ákvað að grípa þennan ódýra varablýant með mér heim úr Hagkaup um daginn og er síður en svo svekkt yfir þeirri ákvörðun. Hann er skemmtilegur everyday nude og ég nota hann til að "finna" varirnar mínar þegar ég er búin að mála mig fyrir daginn- bara svona rétt til að fylla upp í útlínurnar og færa þeim smá líf fyrir daginn (losna við mesta næturgrámann af þeim). 

Milani Luminoso >>
Ég hef átt mér uppáhalds baked kinnalit frá Milani lengi, en það var ekki Luminoso. Ég elska Rose D'Oro kinnalitinn og hef notað hann mikið og varð eiginlega fyrir vonbrigðum þegar ég prufaði Luminoso fyrst. Núna gríp ég samt til hans daglega, hann er frábær svona dagsdaglega fyrir léttan lit og hellings ljóma (ég elska ljóma, meiri meiri ljóma!). Ég nota samt yfirleitt einhvern litsterkari við spes tilefni eins og fyrir djamm og slíkt (ég er alltaf náttúrulega djammandi á bumbunni útum allt). Milani vörurnar fást á haustfjord.is.

Meet Matt(e) Hughes í Committed >>
Og þetta er uppáhalds varaliturinn minn þessa dagana! Ég fékk hann óvænt að gjöf frá Evu á lineup.is sem er æði því ég hafði þráð hann í langan tíma. Mattur fljótandi varalitur í frekar látlausum lit (dásamlega fallegum!) sem hefur það kanski helst fram yfir hina möttu varalitina mína að ég finn lítið sem ekkert fyrir honum. Hann endist að vísu ekki eins lengi og L.A. Splash litirnir, en ég er sjaldnast að sækjast eftir sólahrings endingu svo það truflar mig ekki. Alveg elska þennan og gríp mun oftar í hann en hina varalitina mína þessa dagana!

Katrín María2015/2016

Og þá er líklega best að ég byrji þetta bloggár, fyrst með því að líta til baka og svo með því að líta til framtíðar. Bloggið verður sveipað myndum frá árinu 2015 sem eiga í flestum tilvikum ekkert skylt við textann, bara svo þið klárist ekki úr leiðindum. 

Síðasta "spjallfærsla" var um áramót 2014/2015. Það er svolítið fyndið að líta til baka og sjá hversu mjög hlutirnir hafa breyst. Árið 2015 hefði eiginlega ekki getað tekið óvæntari stefnu en það gerði- það var svo stútfullt af skyndiákvörðunum og stórum lífsákvörðunum að ég hefði eiginlega aldrei getað spáð fyrir um það. Í upphafi ársins hefði ég stungið hvern þann sem hefði reynt að segja mér að í lok árs yrði ég búsett á Ísafirði, hefði hafið mastersnám við Háskólann á Bifröst og væri komin fjóra mánuði á leið með stúlkubarn. Og ég meina... ég er ekkert mikið fyrir að stinga fólk- ekki þannig, en ég hefði líklega alveg gert það í einhverri trylltri geðshræringu því engin þessara hluta hefði getað verið fjarlægari mér í upphafi árs. Ísafjörður var aldrei á planinu. Mastersnám var aldrei á planinu (og þá í fyrstalagi eftir fertugt takk). Barn... jah maður planar ekki börn, þau koma bara ef þau geta og vilja en hversu hjartanlega velkomið var það! Allir þessir hlutir hafa fært mér tilgang og hamingju og ég sé ekki vitund eftir neinum þeirra. 


En það voru líka fleiri hlutir sem ég gerði árið 2015 sem voru óvæntir en veittu hamingju. Fyrir það fyrsta byrjaði ég að "bjútýsnappa" undir snapnafninu mínu katrinmariaa. Það var eiginlega óvart- og fyrst var ég kannski mest að pirra vini og ættingja með förðunarsnöppum fyrir daufum eyrum. Fljótt óx þó áhorfendahópurinn og innan skamms var þetta orðið ein af mínum uppáhalds dægrastyttingum- ekki síst þegar mér bárust sífellt fregnir þess efnis að ég ætti það til að gleðja fólk og kenna því jafnvel eitthvað nytsamlegt. Flestir auðvitað ókunnugir- og það var eitthvað svo dásamleg tilfinning. Ég þakka ykkur öllum, dyggu snapvinir, fyrir skemmtilegt ride sem heldur vonandi áfram að rúlla lengi og vel. 


Ég fór líka í hringferð um landið með Magga sem var óplanað, óvænt en dásamlegt. Þegar maður þráir útlönd stanslaust gleymir maður að þrá Ísland og Ísland kemur á óvart. Verulega. Á örfáum dögum tókst okkur að keyra ríflega 2000 kílómetra með stoppum á sumum af fallegustu stöðum landsins. Við römbuðum t.d. óvænt inn í Þakgil og gistum þar eina nótt á tjaldsvæðinu- einhver fallegasti staður sem við höfum komið á og munum eflaust dvelja þar aftur síðar með nýja fjölskyldumeðlimnum. Það er þó skemmtilegt á það að minnast að eins og ferðin gekk nú vel allan tímann, tókst okkur að sjálfsögðu að sprengja dekk á bílnum síðustu 15 kílómetrana af þessari rúmlega 2000 kílómetra reisu- bara okkar lukka auðvitað. Það vildi til að við "fengum" að skipta um dekkið í sólsetrinu við Rauðasand sem gerði upplifunina allt að því rómantíska (setjum hér ofuráherslu á allt að því). 


Árið 2015 var líka betra á blogginu en fyrri ár. Ég er greinilega mikið að læra og þroskast í mínu áhugamáli og þarf að fara óhuggulega stutt aftur í tímann til að sjá hluti sem veita mér örlítinn (og stundum alveg hellings) kjánahroll. En ég leyfi öllu að hanga hér inni óbreyttu, enda krókótt ferðin upp á við ekki síður mikilvægur hluti af manni en allir áfangarnir sem maður er ánægður með. Einnig var ég duglegri á YouTube og stækkaði rásina mína þar með skemmtilegu fólki.
Ég vona bara að ég haldi áfram að þroskast á öllum þessum sviðum, blogginu, YouTube og Snapchat. Það er alveg klárt að ég get endalaust bætt mig og á margt eftir ólært en það er öruggt að ég hefði ekki lært neitt af þessu án þess að sinna þessu áhugamáli af brennandi ástríðu frá fyrsta degi og alltaf haft trú á að ég gæti lært meira. Förðunarskóli er líka alltaf einhverskonar draumur, ég legg hann ekkert til hliðar á næstunni en ég er dugleg að halda mér uptekinni við eitthvað annað svo það bíður enn. 


Og hvaða væntingar hef ég þá til ársins 2016? Ef síðasta ár hefur kennt mér eitthvað er það að framtíðin og næstu skref, eru ófyrirsjáanleg. Maður getur sett sér markmið og reynt að vinna að þeim en væntingar gera ekki ráð fyrir hinu óvænta. Væntingar eru eitthvað svo ó-spontant, næstum óspennandi. Þannig ég geri engar væntingar til ársins 2016 (vá, þetta hljómar eins og frábært viðhorf til framtíðar!). Hins vegar ætla ég að leggja mig fram við að njóta þess sem ég er að gera hverju sinni. Að njóta þess að vera í mastersnámi, maður er svo sannarlega ekki í mastersnámi oft um ævina. Að njóta þess að eiga stundir með fjölskyldu og vinum, tveir mikilvægir hópar af fólki sem eru sífellt á hreyfingu, síbreytilegir og því miður, í einstaka tilfellum, hverfulir. Að njóta þess að velkomna nýtt líf í heiminn, eitthvað svo ótrúlega magnþrungið og ósjálfgefið. Að njóta þess að sinna áhugamálum mínum og ráðstafa tíma til þeirra, enda auðveldasta leiðin til að týna sjálfum sér að hætta að sinna því sem maður elskar og veitir manni hamingju. Að njóta daganna sem fela ekki í sér neinar sérstakar eða nýjar upplifanir, bara af því að hversdagurinn er fallegur og ekki á allra færi. 

Misskiljið mig ekki. Að vera jákvæður öllum stundum og að muna í amstri hvers einasta dags að njóta stundarinnar er erfitt verkefni og mikil vinna. Þetta er markmið sem ég þarf oft að minna mig á og samt gleymi ég því allt of auðveldlega. En maður getur aðeins stefnt að því að bæta sig, að minna sig á að njóta og vonandi, eftir því sem maður minnir sig á það oftar, veitir það manni alltaf aðeins fleiri góðar stundir. 

Við ykkur kæru blogglesendur vil ég bara segja takk. Þið hjálpið mér að halda þessu áhugamáli mínu áhugaverðu og viðeigandi með því að vera dugleg að fylgjast með og veita feedback. 
Nú er það bara áfram með smjörið!


Katrín María


Áramótaförðun #2| Myndband

Ég er óstöðvandi í myndbandagerð þessa dagana.
Nú hefur annað áramótalúkk litið dagsins ljós- að þessu sinni með mínum allra uppáhalds augnskugga held ég bara. 


Allir sem vilja Tómas í næsta myndband skulu vinsamlegast kommenta slíkar beiðnir í komment undir YouTube myndbandinu! 

Katrín María


Áramótaförðun 2015| Myndband

Og þá er komið að fyrstu áramótaförðuninni fyrir áramótin 2o15/2o16!

Að þessu sinni er fjólublátt glimmer í aðalhlutverki en næsta áramótalúkk fær líklega að vera látlausara fyrir þá sem eru ekki í litahugleiðingum. 


Katrín MaríaJólaförðun 2015 og óvæntar fréttir| Myndband

Hæ! Myndband hvar ég tilkynni eitthvað óvænt og kenni ykkur að glimmera ykkur í gang fyrir jólin!
Vóhó þvílík spenna?!

Þætti vænt um að þið kíktuð og kanski skilduð eitthvað eftir ykkur. Ekki samt kúk í poka, frekar like eða komment. En valið er samt ykkar- þetta er frjálst land.Katrín María


Óskalisti MAKEUP EDITION| Jól 2015

Jæja. Það gengur ekki að hafa förðunarblogg með jólaóskalista sem inniheldur engar snyrtivörur. Þannig að hér kemur það sem mig langar mest í á íslenskum snyrtivörumarkaði (þá meina ég hlutir sem fást hér heima, ekki íslenskir hlutir endilega)

Mig langar mikið í fleiri Red Cherry augnhár. Ég er spenntust fyrir #43 og #110 en langar að prófa þau öll samt. Þau fást t.d. í Makeup Gallerý á Akureyri og á Lineup.is

Mig langar í fullt af fleiri Eyekandy glimmerum, hvaða lit sem er, vil bara safna þessum elskum því þau eru æði! Fást á haustfjord.is

Mig langar í MAC pigment. Bara eitthvað fallegt- alla litina (á engan nema Vanilla). Ég elska pigment og veit þau eru mörg falleg frá MAC. Þau fást í MAC náttúrulega.

Mig langar líka í MAC Fix+ og ég lendi eiginlega óhuggulega oft í því að hugsa; oh nú þyrfti ég akkúrat að eiga fix+ (gríp þó alltaf í tómt). Það fæst í MAC. 

Mig langar í fleiri MAC varaliti. Efst á listanum eru líklega Russian Red, Velvet Teddy, Twig, Spirit, Kinda Sexy, Peach Blossom (Og já bara allir sem elinlikes talaði um í snapstory í kvöld hahaha, takksvomikið).

Mig langar í Lilly Lashes- bara hver sem er! Þau fást í Cool Cos í Reykjavík og ég er alveg allt of spennt að prófa. 


Mig langar í Inglot pigment. Hvaða liti sem er- þau eru öll dásamleg og ég á ekki eitt stykki. Fást í Inglot í kringlunni. 

Svo langar mig í Makeup Eraser klútinn sem fæst í Cool Cos. 

Mig langar líka óttalega mikið að prófa nýju Litcosmetics glimmerin sem fást á fotia.is! Mjög. 

Svo langar mig að skoða Make Up Store vörurnar betur, því ég hef ekkert verið að prófa þær. Væri til í að byrja á einhverjum fallegum kinnalitum. Fást í Make Up Store Smáralind. 

Ég væri líka til í að eiga fleiri Morphe palettur. Á 35S og 35C en langar í 35N, 35W, 35O og eiginlega bara restina líka haha. Fallegar og á góðu verði á fotia.is


Ég gæti raunar haldið áfram allt of lengi. Sérstaklega ef ég tæki allar snyrtivörurnar með sem eru ekki selda á Íslandi. En ég verð að stoppa einhverstaðar. 

Katrín María


Óskalisti| Jól 2015

Sæl kæru vinir. Það hefur ýmislegt dregið á daga mína síðustu misserin sem útskýrir fjarveru mína á helst til öllum samfélagsmiðlum.Nú er allt að komast á réttan kjöl og eftir 4. desember er ég komin í jólafrí. Þá verður kátt á öllum miðlum, vonum við. 
En sökum þess að ættingjar og vinir hafa áreitt mig í að verða heilan mánuð varðandi jólagjafaóskalistablogg (flott orð) þá hef ég ákveðið að miskunna mig yfir þeim og skella í slíkt. Kanski fáið þið jólagjafainnblástur jafnvel. Listinn verður óhóflegur, ég ætlast ekki til neins af honum. En ég læt mig dreyma. Hér kemur þetta í engri sérstakri röð.

Skindinavia The Makeup Finishing Spray. Fæst hér

Ittala Ultima Thule Bjórglös (60cl) koma tvö í pakka og fást hér

Lukkutröll Bronz. Lukkutröllin eru til í allskonar litum og þremur stærðum og boða góða lukku. Mér finnst þau of sæt fyrir lífið og ég þrái eitt Bronztröll af stærstu gerð (eða næststærstu). Fást hér.

Polaroid 600 Myndavél. Þó þessi myndavél sé mögulega það ljótasta sem ég hef séð, þá eru myndirnar úr henni fallegar og mig langar í. Ég veit að Fuji Instax Mini vélarnar eru töluvert meira hipp og kúl, en mig langar ekki í svona ponsulitlar myndir. Fæst hér.

Stórir djúsí ullarsokkar eru á óskalistanum á hverju ári. Fæ þá ekki oft, en þegar ég fæ þá er ég yfirleitt komin í gegnum þá af notkun fyrir næstu jól. Svo þeir fara alltaf aftur á listann. ELSKA ullarsokka. Fæst í höndunum á þér ef þú nennir að prjóna. 

TOGETHER plakat. Fæst hér. 

Have you loved yourself today plakat. Fæst hér.

Sigma Tapered Face Kopar. Fæst hér. 

YSL Top Secret All in one BB cream í litnum Clear (ljósasti). Fæst í Hagkaup. 

Rúmföt Lín design. Áttblaðarós og sólkross. Fæst hér

Paul Pava Vatnsflaska. Fæst hér
Pyropet kisa. Fæst hér. 


Mig langar rosa mikið í hauskúpu. Helst gyllta eða silfraða eða svarta (eða samt bara hvernig sem er) og helst sem er ekki baukur. En ég veit bara ekki hvar slíkt fæst. Þannig þessi er líka mjög á óskalistanum, þó hún sé baukur. Hún fæst hér.

Nude Tude frá theBalm. Hún fæst hér

Annars er ég bara ekkert brjálæðislega viss hvað mig langar í jólagjöf og þessi listi er kanski helst til viðmiðunar, bara eitthvað sem ég rétt náði að skrapa saman í. Mig langar náttúrulega í fullt af snyrtidóti (hvað sem er) en hef heyrt að fólki finnist leiðinlegt að gefa mér það því ég á svo mikið.

 Ég er alltaf heitust fyrir einhverju fallegu á heimilið, borðspilum, snyrtivörum, kertum, kósý sokkum og inniskóm, teppum og bókum svo það er allt efst á óskalistanum. 

Katrín María