Hvern á ég að kjósa og afhverju ég kýs Í-listann.

Hvern á ég að kjósa? 

Þegar maður hefur lítið fylgst með bæjarmálum og stendur svo dag einn frammi fyrir því að þurfa að kjósa í bæjarstjórnarkosningum getur verið flókið að átta sig á hvað maður á að kjósa og af hverju.

Vissulega eigum við það til að snúa okkur að fólkinu í kringum okkur og leita eftir svörum. Skoðanir og val annarra eru hjálpleg verkfæri til að kynna sér málin betur en það er ekki síður mikilvægt að reyna að kynna sér málin sjálfstætt til að geta rökstutt, fyrir sjálfum sér, afhverju maður setur X við ákveðinn lista.
Þegar maður hefur ekki tíma eða jafnvel lítinn áhuga á viðfangsefninu, er auðvelt að líta á umræður um þau mál sem mestur hávaði er í kringum og velja hvert atkvæðið fer út frá því.

Sundlaugar, íþróttahús og önnur stærðarinnar verkefni. Þetta eru mál sem hátt hefur farið af og fólk skiptist í fylkingar. Auðvitað. Þetta skiptir okkur máli. En við verðum að geta horft á kjörtímabilið heilt yfir. Við verðum að gera okkur grein fyrir öllum smáatriðunum sem eru, þegar öllu er á botninn hvolft, atriði sem segja hvað mest um velgengni og farsæld Ísafjarðarbæjar og íbúa hans.
Kosningar snúast nefnilega ekki um að kjósa listann með flottustu loforðin, þær snúast um að kjósa fólk sem áttar sig á allri hinni vinnunni sem fer í að halda bæjarfélagi gangandi. Allri vinnunni sem er mörgum ósýnileg en skiptir gríðarlegu máli í bæjarfélagi á uppleið.

Við hljótum að geta séð að enginn, sem býður sig fram til að starfa í þágu bæjarins, vill neitt annað en uppbyggingu og jákvæðar breytingar. Það er enginn sem vinnur markvisst að því að halda bæjarfélaginu niðri og hunsa vilja íbúanna. Það er enginn sem gerir sér það af gamni að tefja mikilvæg mál og teppa þannig framþróun bæjarins.
Við verðum að skilja það, sem kjósendur, að það er mikið af stórum verkefnum sem þarf að vinna. Um þessi verkefni verður að nást sátt, útkoma þessara verkefna verður að vera besta mögulega niðurstaða fyrir bæinn okkar.

Allir frambjóðendur, allra flokka, vilja það sem íbúarnir vilja. Betri Ísafjarðarbæ. Við viljum fleira fólk, fjölbreyttari og aðgengilegri tómstundir, að nauðsynlegu viðhaldi sé sinnt og fyrst og fremst að hér verði uppbygging.

Þetta hefur væntanlega alltaf verið vilji allra en það hefur bara ekki öllum tekist að forgangsraða hlutunum þannig að þetta gangi upp. Í-listinn hefur sýnt það á líðandi kjörtímabili að uppbygging er möguleg. Ég leyfi mér að fullyrða að Ísafjarðarbær er hægt og rólega að stíga upp úr öskunni. Og það er ekki endilega af því að Í-listinn vill betur en aðrir. Það er einfaldlega af því hann hefur náð að spila rétt úr þeim spilum sem hann hefur á hendi og skapað þannig umhverfi að íbúarnir sjálfir geti tekið þátt í uppbyggingu samfélagsins á sem skilvirkastan máta. Harðduglegir og framsæknir íbúar bæjarins eiga hér mestan heiður af þeirri björtu framtíð sem nú blasir við, en til að íbúarnir og atvinnurekstur þeirra fái notið sín þarf að skapa þeim gott umhverfi og stuðning.

Við getum þóst halda að hér sé utanaðkomandi öflum að þakka fyrir allt sem vel hefur farið á kjörtímabilinu. Betri staða í efnahagslífinu, uppsveifla, flóttinn úr Reykjavík, íþróttamenn að flytja til bæjarins, fólk að vinna í göngum. En ef við erum sannfærð um að íbúafjölgun og uppbygging sé bara einhverjum ósýnilegum öflum að þakka, af hverju göngum við þá yfir höfuð til kosninga? Eigum við að trúa því að bæjarstjórn hafi ekkert að segja um fólksfjölgun? Persónulega hef ég ekki áhuga á að kjósa fulltrúa í bæjarstjórn sem halda að hlutirnir gerist af sjálfu sér. Uppbygging kostar vinnu. Smáatriði skipta máli.

Við viljum stóra sundlaug í Skutulsfjörð já, við viljum fjölnota íþróttahús já. Það er aldrei meiri forsenda fyrir slíkum verkefnum en einmitt þegar fólki fjölgar í bæjarfélaginu. Til þess að halda áfram að stuðla að fjölgun þarf að byggja hér upp blómlegan og fallegan bæ þar sem grunnurinn er traustur og veitir möguleika á frekari uppbyggingu.
Það ákveður enginn að flytja til Ísafjarðar BARA af því að það er svo dýrt að búa í Reykjavík. Við byggjum okkur ekki trékofa að búa í bara því það er ódýrara en alvöru hús. Við veljum okkur staði þar sem þjónustan er góð, þar sem samfélagið blómstrar og þar sem íbúar fá að hafa rödd þegar stórar ákvarðanir eru teknar.

Af hverju Í-listann?

Auðvitað finnst fólki að hér hefði mátt gera meira á kjörtímabilinu. Þannig líður manni alltaf þegar maður þráir að byggja upp bæinn sinn, það er aldrei nóg og það er aldrei búið. En núna, í fyrsta skipti í langan tíma, eru hlutirnir að gerast. Og ég er ekki tilbúin að skrifa allt það frábæra sem hér hefur gerst á einhver öfl sem við höfum enga stjórn á. Ég er tilbúin að þakka Í-listanum fyrir hvernig þau hafa, í samráði við íbúa, náð að spila úr þeim spilum sem þau hafa fengið á hendi. Ég er tilbúin að kjósa þau áfram til góðra verka af því að þau hafa sýnt að þau eru traustsins verð.

Það getur nefnilega alveg verið uppsveifla og  “hagstæður tími til að vera í bæjarstjórn” en fólki getur samt mistekist að nýta sér það til góðs. Í-listanum hefur ekki mistekist.

Í-listinn er eini listinn með manneskju undir 25 ára í efstu þremur sætunum. Það er heillandi því rödd ungmenna verður að heyrast og Í-listinn leggur áherslu á aukið hlutverk ungmennaráðs.
Í-listinn leggur áherslu á íbúalýðræði, þ.e. að íbúar hafi aukna aðkomu að málefnum sveitarfélagsins og að við fáum öll að taka þátt í að byggja upp samfélagið okkar. Þessu á að skerpa enn frekar á á næsta kjörtímabili. Svona hlutir verða ekki fullkomnaðir yfir nótt en ég vona að Í-listinn fái að halda áfram að efla boðleiðir og auðvelda þátttöku íbúa við ákvarðanatöku.
Í-listinn hefur það einnig sem markmið að efla geðheilbrigðismál, auka sérfræðiþjónustu til að mæta þörfum barna og fara í markvissa vinnu til að takast á við kvíða barna og ungmenna. Nokkuð sem er ótrúleg þörf á og hefur mikið að segja fyrir samfélagið okkar í heild.

Ég vil að lokum koma inn á mikilvægi þess að kjósa fólk sem veit hvað er að gerast í bænum okkar og hefur ástríðu fyrir starfinu. Þetta er ekki spurning um að sigra. Þetta er spurning um að vinna.**fyrir íbúana og bæinn okkar.

Katrín María Engin ummæli :

Skrifa ummæli