Hvernig lítur andleg lægð út?

Við erum veik fyrir því að horfa og sjá. Við mælum fólk og hluti út með augunum áður en við leggjum virði í karakter þeirra og persónueinkenni. Ósjálfrátt. Við erum sköpuð með augu sem sjá hið áþreifanlega áður en við tökum eftir því óáþreifanlega. 

Ég hef áður komið stuttlega inn á andleg veikindi- svosem ekki oft. Kannski aðallega einu sinni, í þessari færslu hér, en ég er semsagt ein af þeim sem stjórnar hugsunum sínum ekki alltaf fullkomlega. Undanfarnar vikur má segja að ég hafi fundið fyrir lægð inni í mér. Hvergi nærri eins slæmri og þeirri sem ég lýsti í færslunni sem ég bendi á hér að ofan, en lægð engu að síður. 

Ég áttaði mig ekki einu sinni á því fyrr en mér var bent á það af yndælli vinkonu, að ég hef þroskast helling í viðhorfi mínu og baráttu við andleg veikindi síðan ég sagði skilið við síðustu lægð fyrir rúmum tveimur árum. Ég er hætt að horfa á og tala um mig sem samgróning veikinda minna og horfi frekar á þetta sem tímabil sem ég veit að tekur enda. Þessi veikdini eru ekki ég, þau eru bara eitthvað sem ég geng í gegnum endrum og eins. Ekki aðeins það, heldur er ég hætt að reyna að baða út öllum örmum eins og drukknandi manneskja, öskrandi og hrópandi á stöðugum en vonlausum flótta undan veikindum mínum sem verða óneitanlega partur af vegferð minni í lengri eða skemmri tíma. Ég leyfi mér að eiga þetta tímabil. Nú veit ég að þetta gengur yfir ef ég er skynsöm, ef ég hlusta á sjálfa mig, ef ætlast ekki til þess að sigrast á þessu á einum degi. 

Áður, þegar ég fann fyrir ofsakvíða, ætlaðist ég til að ég yrði strax laus við hann ef ég tæki eina hugrakka ákvörðun og framkvæmdi hana. Ef það tókst ekki gafst ég upp, fullkomlega, og ákvað að ég væri bara svona. Þýðir ekkert að berjast á móti, ég lagast ekkert, ég loka mig bara inni og gleymi því að reyna að taka þátt.

Núna veit ég að þetta er ekki ég, þetta er bara eitthvað sem ég þarf stundum að berjast við.

Það er ekki þar með sagt að þessi lægð sé eitthvað auðveld. Það koma ennþá kvíðaköst þar sem ég held raunverulega að ég sé að deyja og dagar þar sem ég missi af allskonar í lífinu af því ég treysti mér ekki til að taka þátt. En núna eru þetta bara dagar. Ekki bara ég. Ég leyfi þessu tímabili bara að vera það sem það er. Suma daga finn ég að ég hef lægri þröskuld, og þá leyfi ég kvíðanum bara að vinna, þá fær hann bara að koma í veg fyrir að ég geri hluti sem ég veit að eiga ekki að vera neitt mál. En þá geri ég líka bara ráð fyrir því að í sömu viku komi dagar þar sem kvíðinn vinnur ekki og ég fer og geri hluti sem mér finnst erfiðir eða óþægilegir en ég get það af því ég hlusta á sjálfa mig og finn ég hef burði í það þann daginn. Suma daga veit ég að ég get meira, aðra daga finn ég að ég get minna. Og ég leyfi því bara að vera svoleiðis. Ég þarf ekki að vinna sigra á hverjum degi og stundum má ég jafnvel tapa, bara á meðan ég er skynsöm og læt kvíðann ekki vinna alltaf. Sumar vikur eru fínar, aðrar eru hræðilegar. Á meðan ég rói svo þennan ólgusjó fækkar öldunum smá saman þar til þær verða lítið annað en undiralda sem ég ræð vel við. Og ég leyfi mér að bíða róleg á meðan.

En hvernig lítur lægð út? Mér finnst ég aldrei eins einmana eins og þegar ég er mjög kvíðin og þegar ég ræð ekki fullkomlega við hugsanir mínar. Mér finnst hugsanirnar fáránlegar, mér finnst fólk ekki skilja mig og stundum finnst mér ég vera svo gjörsamlega ein inni í hausnum á mér að ég gæti allt eins verið ein í heiminum. Og ég fór að reyna að hugsa um fólk í kringum mig, hver ætli sé í sömu sporum og ég? Hversu margir? Get ég rennt yfir einhverja í huganum sem "líta út fyrir" að vera að berjast við það sama? Nei. Ég sat við ströndina á Spáni, eins og klisjukennt málverk, og velti þessu fyrir mér. Auðvitað get ég það ekki. Hvernig er ég að sýna öðru fólki að ég sé að berjast við lægð? Það er ekkert augljóst við það.

Svona lítur lægð út:

Lægð lítur út eins og hversdagurinn, eins og ævintýrin, eins og góðu stundirnar og vondu stundirnar. Lægðin er með öðrum, lægðin er ein. Hún er stífmáluð, ómáluð, sköpunarglöð, framkvæmdarlaus með öllu. Lægðin er allt og hún er ekkert.

Ef þú finnur þig í sömu sporum og ég, þar sem þú leitar eftir jafningja í frekar vonlausum aðstæðum, hættu að leita og mundu; þú sérð ekki lægðina, hún bara er.
Og hún fer.

Það væri lygi að segja að ég hafi alltaf hugsað svona. En ég er að segja ykkur frá því hvernig ég hef þroskast í baráttunni og ég vil hrósa mér. Í allri hugsanavillunni og stjórnleysinu sem ríkir inn í hausnum á mér hef ég aldrei haft jafn mikið vald á óreiðunni. Þó ég hafi sjaldnast yfirhöndina.

Katrín María


2 ummæli :

  1. Skil þig svo vel, erfitt að "myndbirta" ósýnilega sjúkdóma :-/ Þú ert glæsileg í gegn :-D Gangi þér vel að "halda sjó" og sigla stolt í gegnum lægðirnar og takk fyrir að fá að fylgjast með þér á Snapchat, þú ert tær snilld ;-) <3

    SvaraEyða
  2. Tengi. Góð lesning. Gott að heyra að það gengur betur.

    SvaraEyða