Töfratuskurnar úr Bónus

Það skal skýrt tekið fram nú strax að þessi færsla er ekki kostuð og ég keypti þessar bansettu tuskur sjálf fyrir mína eigin peninga með það í huga að þrífa húsið mitt Diego-style!
Nú þegar það er frá er best ég segi ykkur sem ekki fylgist með mér á snapchat (katrinmariaa) hvaða tuskutal er eiginlega í gangi. En þessar tuskur, sem eru nota bene skelfilegar til heimilisþrifa, eru einhverjir bestu förðunaaftakarar (já, ég íslenskaði make up remover) norðan alpafjalla.
ÉG ER EKKI SNYRTIFRÆÐINGUR EÐA SÉRFRÆÐINGU Í HÚÐHUMHIRÐU Á NEINN HÁTT. EFTIRFARANDI ER SAMANTEKT BYGGÐ Á REYNSLU OG RANNSÓKNARVINNU. EKKERT ER HEILAGT.
Ég ákvað í tilraunastarfsemi að prófa að nota tuskurnar til að þrífa af mér málningu eitt kvöldið. Ég sýndi frá því á snapchat, en þar sáum við í sameiningu að blessuð tuskan tók hverja einustu örðu af eyeliner, maskara, meiki, augnskugga, augabrúnablýanti, gulllaufi og glimmeri af andlitinu á mér á svipstundu með engu nema heitu vatni. Ekkert óþarfa ofurnudd, engin efni, ekkert micellar vatn, bara gamla góða íslenska (og í sumum tilfellum saurgerlamengaða) vatnið. Ég renndi yfir andlitið í kjölfarið með farðahreinsi í bómul og ekkert, ekki arða eftir á andlitinu á mér.
En sagan er ekki búin þar. Næstu daga fór að bera á tuskutryllingi meðal snapchatvina minna. Hvar fást tuskurnar? Hvernig tuskur eru þetta? Hvað kosta tuskurnar? Er óhætt að nota þessar tuskur á húðina? Og ég taldi því tímabært að ég legðist í rannsóknarvinnu. Var ég nokkuð að mæla með einhverjum stórhættulegum óþverra? Og menn og konur stæðu nú í röðum við tuskurekka landsins að afsala húðheilsu sinni fyrir nýjasta snachatæðið?dsc00731
dsc00730Það sem þú þarft að vita:
 • Tuskurnar eru venjulegar micro fiber tuskur og koma 4 í pakka í Bónus á litlar 495 krónur. Þær heita Ultra Clean (hafið samband við mig á snapchat: katrinmariaa ef þið viljið mynd af umbúðunum).
 • Microfiber tuskur eru vinsælar til slíks brúks sem ég hér auglýsi og eru sumar þeirra jafnvel framleiddar af snyrtivörufyrirtækjum, sérstaklega auglýstar til húðhreinsunar.
 • Þessar tuskur eru yfirleitt úr annað hvort 100% pólýester eða 80% pólýester og 20% Polyamide (sem er tegund af nyloni). Mínar eru 100% pólýester.
 • Microfiber er þráður sem er ofboðslega fínn, hann er fínni en silki (og silki er ekki nema einn fimmti af mannshári á þykkt) þannig þið getið rétt ímyndað ykkur.
 • Microfiber kemst þess vegna dýpra ofan í húðina og hreinsar betur en t.d. venjulegur þvottapoki.
Microfiber tuskur er gjarnan notaðar vegna þess að þær:
 • Hreinsa bakteríur og óhreinindi upp úr húðholum
 • Hreinsa farða og aðra málningu af andlitinu
 • Fjarlægja dauðar húðfrumur (exfoliate)
 • Vinna á örum og litablettum í húðinni
 • Vinna gegn bólum (acne)
 • Vinna gegn fílapenslum
 • Vinna á öldrunarblettum og hrukkum
 • Virka sem skrúbbur á varirnar (ekki meiri heimagerð sykurblanda á mínar varir takk)
 • Virka vel á þurra húð til að halda leiðindar húðflögum í burtu
 • Virka vel á feita húð til að losna extra vel við óhreinindi og fitu
Það sem ber að varast:
 • Tuskurnar koma ekki í staðinn fyrir andlitssápuna þína sem þú notar venjulega eftir að hafa hreinsað alla málninguna af andlitinu, þær eru meira í staðinn fyrir farðahreinsi (do as I say, not as I do).
 • Tuskurnar hreinsa burt náttúrulegu olíur húðarinnar og því er mjög mikilvægt að nota strax gott rakakrem eftir á, sjálf nota ég líka rakamaska 1-2 í viku. Tuskurnar raska þó ekki sýrustigi húðarinnar.
 • Það þarf ekki að nudda fast. Tuskurnar taka efsta húðlagið af (exfoliate) jafnvel með léttum hringlaga hreyfingum, of ákaft nudd getur pirrað húðina þína eða gert hana viðkvæma fyrir bakteríum (eins og ef þú notaðir andlitsskrúbb af of mikilli hörku).
 • Það getur verið að húðin þín sé viðkvæm og þoli ekki að þú notir tuskuna daglega, notaðu hana þá frekar sem “skrúbb” 2-3 í viku. Eða finndu út rétta “prógrammið” fyrir þig.
Pro Tip:Tuskurnar grípa meira af óhreinindum og efnum úr húðinni ef þær eru bara bleyttar með vatni. Ef þér finnst tuskurnar og “rough” á húðinni þinni er hægt að setja í þær farðahreinsi, sápu eða hreinsiolíu og þá grípa þær ekki eins vel (eru sleipari) og eru þar af leiðandi ekki eins “harðhentar” við húðina þína.
Þú þrífur tuskurnar með því að henda þeim í þvottavél, ekki nota mýkingarefni og ekki setja þær í þurrkara- þetta tvennt dregur úr eiginleikum microfiber þráðanna. Gallinn við tuskurnar er sá að það er erfitt að ná úr þeim blettum, mínar koma allar blettóttar úr þvotti, en það dregur þó ekki úr virkni þeirra.
Prufið eða prufið ekki. Ég er hæstánægð með þessa ódýru og fljótlegu leið til að hreinsa af mér farða og þurra húðin mín er svo hamingjusöm með að vera laus við allt húðflöguvesenið sem fylgir kólnandi árstíðum. Ég er ekki að segja þér að rjúka út í búð- en fyrir ykkur skrilljón sem hafið sýnt þessu áhuga, þá vildi ég að þið vissuð aðeins meira.
Screen Shot 2016-03-29 at 13.29.03


Engin ummæli :

Skrifa ummæli