SCULPT EXCELLANCE| MAKE UP STORE| FYRIR/EFTIR

Varan var fengin að gjöf og allt sem ég skrifa í þessari færslu er þess vegna haugalygi og ómarktækt.
Uuu. Djók? 
Hæ, já já ég skal aldrei vera alvarleg í þessum gjafa/ekki gjafa tilkynningum. Get það ekki. En í maí, jafnvel í vikunni sem ég var stödd í Reykjavík til að eignast barn, kíkti ég í Make Up Store í Smáralind og fékk meðal annars þessa vöru að gjöf. Ég var að sjálfsögðu gífurlega spennt að prufa þennan nýja farða sem MUS var að setja í framleiðslu Sculpt Excellance. Nú hef ég setið og látið álit mitt á vörunni malla í góða fimm mánuði svo ég tel mig aldeilis tilbúna að setjast niður og segja ykkur frá henni. Það skal vissulega tekið fram að myndirnar af mér fyrir þetta blogg tók ég fyrir mörgum vikum- þetta fæðingarorlof hefur bara þannig áhrif á mig að ef ég er ekki að sinna barni þá bara gleymi ég að sinna öllu. Kallið mig Kötu klessu, mér er sama, klessur eru fínar. Það eru svín líka.
Ég get sagt ykkur í fullri hreinskilni að þessi farði er uppáhalds farðinn minn þessa dagana. Og ég hef ekki sömu skoðun á honum og aðrir. Ekki misskilja mig, flestir ef ekki allir sem ég hef heyrt tala um hann eru að fíla hann í botn, en flestir virðast að sama skapi upplifa hann öðruvísi en ég. Farðinn gefur sig út fyrir að vera mattur en mér finnst hann gefa ljóma. Já ég veit ekki hvernig upplifanir af sömu vöru geta verið svona ólíkar, en það fyrsta sem ég tók eftir var að mér fannst hann gefa mér ljóma (þ.e. með glitögnum). Mér finnst hann ekki dewy (svona eins og maður glansi/sé sveittur) en samt einhvern veginn ljómandi í öllum sínum “mattleika”. Ég, með mína þurru húð, var hrædd um að hann myndi ekki henta mér, en svo er ég dolfallin. Hann veitir rosalega þekju, helst mattur (en jafnframt ljómandi) og endist lengi á húðinni. Mér finnst hann koma fallegastur út á þurri húð ef notaður er blautur beautyblender svampur (eða einhverskonar förðunarsvampur).
Ég get svo fúslega viðurkennt að það hlakkaði pínu í mér þegar ég komst að því að þessi uppáhalds farði minn er einnig uppáhalds farði skandinavíska ofurförðunarfræðingsins Lindu Hallberg (sem er hrein og bein fyrirmynd í öllu sem viðkemur förðun), auk þess sem farðinn er í miklu uppáhaldi hjá ástralska YouTube-aranum Chloe Morello sem ég hef lengi fylgst með og dásamað.
Ég vil endilega benda ykkur á umfjöllunina hennar Rebekku vinkonu minnar sem tók farðann fyrir á blogginu sínu fyrir um tveimur vikum. Hún veit hvað hún syngur og það er gaman að fá fleiri en eina umsögn um vörur.
fyrir-eftir-eftirHér er svo án farða/með farða/með fulla förðun.
IT’S A BEAUTY
Katrín María


Engin ummæli :

Skrifa ummæli