Mía

[Færslan er ekki kostuð, barnið var að hluta búið til af höfundi en 50%  gjöf frá maka, umfjöllun endurspeglar hreinskilið álit greinahöfundar]
Mía, hvað get ég sagt. Ég bjó til barn.
Ég er hægt og rólega að kynnast Míu Salóme, ég hef lært að elska hana, jafnvel meira og meira með hverjum deginum. Ég ætla ekki að segja að fyrsta tilfinningin sem ég fann þegar ég fékk hana í fangið hafi verið ást, því það væri lygi. Ég ætla heldur ekki að segja að ástæðan fyrir því hafi verið fæðingarþunglyndi, því það væri líka lygi. Mér finnst bara ekkert skammarlegt við það að þegar þú færð ókunnugan einstakling í fangið í fyrsta skipti geturðu líka bara alveg verið skíthrædd, hissa, óviss, spennt, kvíðin, stolt og allskonar svona tilfinningar sem eru ekki bara hrein 100% ást, og kannski er ást bara ekki ein af þessum fyrstu tilfinningum. Auðvitað vissi ég að ég elskaði hana, en ég sprakk ekki úr ást um leið og hún var lögð í fangið á mér (lesist, reif hana upp úr klofinu á mér og gleymdi að hún væri enn föst í naflastrengnum). Stundum finnst mér sú krafa vera gerð til mæðra, og ef það er ekki læknisfræðileg ástæða fyrir því (sbr. fæðingarþunglyndi) þá er maður jafnvel pínu einkennilegur. Ég neita að trúa að ég sé sú eina.
Það tók ekki langan tíma að verða ástfangin af Míu, hún er dásamleg. Hún öskrar mikið á mig, því hún finnur oft til í maganum. Hún öskrar líka á mig þegar hún er mjög svöng (skiljanlega, ég er líka algjör douche þegar ég er svöng). En hún brosir líka mikið til mín og reynir hvað hún getur til að hjala og spjalla. Svo sefur hún allar nætur í 7-8 klukkutíma, þvílík tillitsemi! Mía þolir ekkert sem er gott, eins og súkkulaði og gos og ost. Allt sem ég elska. Blessunarlega elska ég hana meira, þannig ég legg matarástina til hliðar um sinn svo að barnið líði ekki fyrir. Hver þarf svosem mjólkurvörur? Ég þarf allavega ekki að versla við MS (heheheh).
Við Mía erum bara að eyða dögunum í að kynnast og dúlla okkur og grenja (maður þarf alltaf smá að grenja líka). Það útskýrir ástæðu þess að ég hef að mestu verið fjarverandi á Kalon.is en svona vill verða þegar maður kaupir hús, eignast barn og er partur af heimasíðuopnun allt í sömu vikunni, eitthvað verður undir. Ég vona samt að ég fari að nýta tímann betur, nú þarf ég bara að koma snyrtiaðstöðunni í stand svo ég geti fari að make-up-a mig í gang, en ég hef verið einstæð móðir síðustu tvær vikur eða svo og því geri ég eiginlega ekkert nema að sinna barninu og eiga rólega stund þegar færi gefst. Mig langaði bara svona aðeins að kynna hana Míu litlu og láta heyra í mér. Vonandi heyrið þið bara ennþá meira í mér á næstu misserum. Ég gæti skrifað þúsund blaðsíður um Míu og meðgönguna og fæðinguna og lífið með henni, en fólk hefur víst lítinn tíma og litla þolinmæði í langar færslur, þannig ég sit á mér að sinni.
DSC00276
Screen Shot 2016-03-29 at 13.29.03


Engin ummæli :

Skrifa ummæli