Katrín María| Intro

[Færslan birtist fyrst á Kalon.is]
IMG_0564
Ég get nú varla gert ráð fyrir að þið vitið öll nákvæmlega hver ég er. Þannig mér fannst kannski viðeigandi að við skoðum aðeins hver Katrín María er og hvað ég er að gera hér.
Ég er 24 ára Ísfirðingur og er hér niðurkomin helst vegna viðveru minnar í blogg- og snappheimum undanfarin misseri. Ég hef rekið bloggið katrinmaria.com síða 2011 (5 ár!) og fær það nú pásu á meðan ég sinni hlutverki mínu sem hluti af þessum flotta Kalon hópi.
Árið 2011 kunni ég ekkert að mála mig, ég kunni ekkert að mála aðra og ég átti einn maskara og eitt púður í byrjun ársins. Ég rambaði fyrir mistök inn á förðunarmyndbandasamfélagið á YouTube sem var þá bæði lítið og eiginlega alveg nýtt af nálinni og upp úr því kviknaði einhver bilaður áhugi á förðun, en förðun eða snyrtivörur höfðu ekki heillað mig hið minnsta fram að því. Ég var svo spennt yfir þessu öllu saman að ég ákvað að opna blogg þrátt fyrir að vera algjörlega týnd í þessum efnum og ein sú allra slakasta í að brúka málningarburstana.
Í dag er ég svo ofboðslega þakklát fyrir að hafa fundið hugrekkið til að opna þetta blessaða blogg, sem í raun var byggt á engu en fékk svo að þroskast og dafna með mér í gegnum árin, því það kom mér hingað. Það hjálpaði mér að bæta mig og þróa þetta áhugamál mitt og kynnast endalaust af hæfileikaríku og bráðskemmtilegu fólki með sömu áhugamál. Þetta er klárlega með því betra sem ég hef gert fyrir sjálfa mig í lífinu- þó ég skilji ekki ennþá hvað ég var að spá þarna í upphafi.
IMG_0576
Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum hér á Kalon.is og er ótrúlega þakklát að tilheyra þessum hópi af ótrúlega flottum og hæfileikaríkum konum.
Ef við lítum út fyrir heim samfélagsmiðla þá hef ég aðalega eytt seinustu árum af lífi mínu í að sinna námi. Ég útskrifaðist úr Menntaskólanum á Ísafirði, bara til að halda skólapínunni áfram í Háskólanum á Akureyri, hvar ég kláraði bachelor gráðu í sálfræði. Ég tók þá kærkomna pásu í ár og vann á leikskóla, sem var bæði skemmtilegt, gefandi og erfitt (hef aldrei gúffað í mig eins mikið af sýklalyfjum á 9 mánuðum og þá). Fyrir ári síðan missti ég svo vitið einhvern veginn. Ég fór þvert á eigin vilja og sannfæringu (að ég hélt) vestur á firði aftur og ákvað að þar skyldi ég dvelja hjá mömmu minni og pabba í nokkra mánuði ásamt Magga kærastanum mínum þar sem við ætluðum að safna okkur pening til að eiga auðveldara með að flytja í höfuðborgina.
Í kjölfarið gerðust allskonar bilaðir hlutir. Ég skráði mig í mastersnám (maður safnar sko engum pening í slíku námi), ég varð ólétt (maður sparar einmitt ekki mikið af að eignast börn heldur) og nú er svo komið að við ætlum að setjast að á Vestfjörðum. Plan næstu missera er því einfalt; koma einu stykki barni í heiminn, koma mér upp nýju heimili, klára mastersnám í forystu og stjórnun frá Bifröst og sinna nýrri bloggsíðu (vonandi) eins og herforingi. Leyfum þessu svo bara að spilast út og fletta ofan af sér jafnóðum, hver veit hvað gerist á næstu 12 mánuðum? Ekki ég.
1435426531260


Engin ummæli :

Skrifa ummæli