Húsið

Í sömu viku og ég eignaðist barn, eignaðist ég hús.
Kallið mig klikkaða, ég, 24 ára gömul sveimhuga dama með villta drauma, keypti mér hús (ásamt unnustanum auðvitað) í ofursmáu sjávarþorpi vestur á fjörðum. Sjávarþorpi sem ýmsir myndu segja að væri í andaslitrunum, eins og svo mörg önnur íslensk sjávarþorp. Margir kjósa að líta á þetta sem ótæpilega mikla skuldbindingu. Húskaup á brjálæðislega ósöluvænum stað þar sem atvinna er af gríðarlega skornum skammti og eina búðin í þorpinu selur smjörlíkisstykkið á 500 krónur. Um tíma var ég hjartanlega sammála því að þetta væri sturluð hugmynd og fyrir ekki meira en ári síðan hefði ég ekki látið mér detta þessi vitleysa í hug- þetta er jú svo ópraktískt.
Og hvað? Ég áttaði mig bara á því að lífið er núna. Ef mig langar að kaupa hús í pínulitlu íslensku sjávarþorpi þá kaupi ég mér hús í pínulitlu íslensku sjávarþorpi. Þó að fólki finnist það bilað, þó að ég fari á mis við hluti sem eru í boði annarstaðar og ekki hér. Ég get bara gert eitthvað annað seinna, þegar og ef mig langar. Það tók mig nokkra stund að átta mig á því (með hjálp frá nokkrum uppáhalds) að ég er ekki tré, ég get fært mig úr stað. Skuldbindingar eru partur af því að vera til. Ég get samt ennþá skipt um skoðun, ég get ennþá einhverntímann seinna gert eitthvað annað, búið einhverstaðar annarstaðar, keypt eitthvað annað hús. Ég var ekki að taka ákvörðun um að vera hér þangað til ég færi mig yfir í næsta garð (sem er nota bene kirkjugarður) þ.e. ef allt fer að óskum, sem við bara stefnum að. Ég var bara að velja mér stað sem mig langar að vera á núna. Og kannski verður mikil vinna að skipta um skoðun, að færa sig úr stað, en það er hægt og við vitum það öll fullvel hvort sem er, að lífið er vinna og samt er það svo dásamlega fallegt. Ég vona bara að lífið gefi mér tækifæri til að taka allskonar sturlaðar, stórar og smáar, bindandi og spontant ákvarðanir í gegnum tíðina, það eru ekki allir svo heppnir.
Ég er búin að átta mig á að ef maður er alltaf að reyna að lifa eftir einhverju sem öðrum (og jafnvel manni sjálfum) gæti þótt eðlilegt lífsmynstur, þá veit maður sennilega bara aldrei hvað maður er að gera eða afhverju. Það er miklu skemmtilegra að gera bara það sem mann langar, ekki það sem maður heldur að sé eðlilegast eða mest viðeigandi á mælikvarða annarra. Það þarf blessunarlega enginn annar að búa í þessu húsi nema ég, Mía og Maggi. Ef við erum sátt við það erum við sennilega bara í hinum bestu málum.
Ekki misskilja mig, eins og ég sagði hér ofar þá þótti mér þetta sturluð hugmynd fyrir ekki meira en ári síðan. En maður má skipta um skoðun, maður má breytast og þroskast og hætta við og hætta við að hætta við. Og það er bara svo gaman að fá það allt.
Ég vil enda þessa færslu á að mæla með því að þið gerið hlutina í þeirri röð sem ykkur lystir, þegar og ef ykkur lystir. Við höfum ekki öll áhuga á því sama og við höfum ekki einu sinni öll áhuga á sömu hlutunum alla tíð. Ef ég hef færi á, ælta ég að reyna að gera það sem mig langar, þegar mig langar og þegar mig langar það ekki lengur ætla ég að hætta því.
Screen Shot 2016-03-29 at 13.29.03


Engin ummæli :

Skrifa ummæli