2016/2017


Eitt ár enn.
Þegar ég lít til baka á færsluna sem ég skrifaði um áramótin síðustu fæ ég hlýju í hjartað. Þar minnti ég sjálfa mig á að hvað sem er getur gerst og því ákvað ég að fara væntingalaus inn í árið 2016 og frekar leyfa mér að njóta alls þess sem myndi gerast þetta ár því lífið er óvænt og uppátækjasamt alveg upp á eigin spýtur. Það sannaðist enn og aftur. Á ný fann ég mig í aðstæðum sem hefðu verið mér stórkostlega fjarlægar árið áður- en voru samt svo eðlilegur hluti af púsluspilinu eftir á að hyggja.

39 vikur
Byrjun ársins einkenndist af bið eftir nýjum erfingja. Erfingja sem ég var frá upphafi staðráðin í að væri stúlka og hafði því um jólin 2015, í samráði við Magga (og kannski helst að hans frumkvæði), gefið henni nafn án þess að hafa fengið kynið staðfest. Sem var ágætt, því hún lét sko ekki sjá sitt allra heilagasta fyrr en á viku 37, en ekki í janúar á 20. viku eins og áætlað var. Biðin gekk heilt yfir vel þó hún hafi á stundum verið erfið og þreytandi.
Árið var ekki með öllu skuggalaust því snemma árs fylgdist ég með bestu vinkonu minni kveðja ástina sína, eiginmanninnn sinn, í hinsta sinn. Maður getur aðeins fylgst með og ímyndað sér sársaukann, en aldrei almennilega skilið hann. Það er flókið að vera að upplifa eitt af bestu árunum sínum til þessa á meðan fleiri en einn og fleiri en tveir sem manni þykir vænt um eru að upplifa sitt versta. Það er eitthvað ósanngjarnt ójafnvægi í því. Um vinkonu mína hef ég bara engin orð, mér finnst hún hafa sýnt allt að því ómennskan styrk. Hún er mér eins og oft áður, fyrirmynd í svo miklu fleiru en hún mun nokkurn tíma vita.
Í lok maí kom Mía Salóme í heiminn. Að verða móðir var ekkert eins og ég hafði ímyndað mér. Mér fannst hún skrítin og ókunnug en samtímis elskaði ég hana svo heitt að mig verkjaði í hverja frumu þegar hún átti erfitt. Hún byrjaði á því að léttast of mikið, svo ég grét í heilan dag. Hún fæddist með lausa mjöðm og þurfti að vera í spelku í 6 vikur, svo ég grét í heilan dag. Hún fékk mjólkurofnæmi, upplýsingar þess efnis komu ekki fyrr en allt of seint sem úrslitaðist í vítiskvölum fyrir elsku barnið fyrstu vikurnar, þar til ég ákvað í samráði við sjálfa mig að taka út mjólkurvörur. Fram að því eyddi ég ófáum dögum grátandi, með grátandi barn í fanginu sem fann ekki nokkra ró á daginn. Mía Salóme hefur samt alltaf sofið allar nætur án þess að rumska, 10-14 tíma. Það hefur vissulega aldrei verið grátið yfir því.
Í dag er Mía Salóme mér hvorki ókunnug né skrítin. Hún er dásamleg. Alveg extra dásamleg (algjörlega hlutlaust mat). Hún er alltaf glöð, ótrúlega áhugasöm um heiminn og sífellt hissa á því sem hann hefur að geyma, hún ýlir þegar hún er glöð (Indriði myndi aldrei meika þetta ýl, Á HANN AÐ LAGA ÞAÐ!?), hún kvartar aldrei nema hún sé orðin verulega hungruð eða vansvefta (enda kláraði hún sennilega kvótann fyrstu 4 mánuði ævinnar), grætur aldrei nema hún meiði sig mikið, er miklu hrifnari af pabba sínum en mömmu og hlær eins og grátandi gamall maður.
Að verða mamma var, þrátt fyrir allt, miklu minna mál en ég bjóst við. Við þurfum samt kannski að taka með inn í dæmið að ég kann að mikla hluti gríðarlega fyrir mér og kvíða þeim. Ímyndunarafl mitt er greinilega mun svartara en krefjandi raunveruleikinn.
Eftir yndislegan vetur í kjallaranum hjá mömmu og pabba áttuðum við okkur á því að við þyrftum að búa barninu okkar heimili og því tókum við þá trylltu ákvörðun um að kaupa okkur hús. Það gerðum við innan við viku eftir að Mía Salóme fæddist. Húsið er á Flateyri. Ég hef skrifað allt um húsið og tilfinningar mínar gagnvart því hér. En Flateyri kemur á óvart og okkur hefur aldrei liðið eins mikið “heima”. Það var töluvert stökk að fara úr 56 fermetra íbúðinni okkar á Akureyri, yfir í 200 fermetra einbýli vestur á fjörðum- en hér er alltaf pláss fyrir góða gesti og okkur þrjú og það er dýrmætt.
Sumarið var vel nýtt með Míu, það var gott veður, við sóluðum okkur, Maggi sló garðinn og dútlaði við limgerðið af mikilli innlifun við hvert tækifæri og við nutum þess að koma okkur fyrir. Þegar hausta tók var Mía orðin þriggja mánaða og mér var ekki til setunnar boðið. Ég hóf því síðustu önnina í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst með eitt (þá vansælt) ungabarn á handleggnum. Einhvern veginn komst ég í gegnum þessa önn þrátt fyrir að vera mikið ein, en Maggi hefur þurft að vinna mikið erlendis og í öðrum landshlutum í lengri og skemmri tíma. Mamma og pabbi stukku glöð inn í á örlagastundum svo ég gæti sinnt náminu af eljusemi og ég segi skilið við Háskólann á Bifröst með 8 í meðaleinkunn, sem ég held ég geti bara verið stolt af. Annar hápunktur vetrarins var svo að fá að hitta loksins allar dásamlegu konurnar (og fólkið) sem ég hef verið í sambandi við í gegnum netheima í óratíma þegar ég mætti á Urban Decay viðburðinn í Reykjavík í nóvember. Ég er þakklát fyrir þessar flottu konur sem ég blogga með hér og allar þær sem ég hef kynnst í gegnum samfélagsmiðla síðustu 2 árin eða svo. Ég óska þess að ég fái að kynnast þeim miklu betur og hitta þær miklu oftar á nýju ári.
urban-decay-36 dsc00080urban-decay-29 dsc00042

Ég kveð þetta góða ár 2016 sátt og sæl og geri enn og aftur engar væntingar til ársins 2017. Sjáum hvað það hefur upp á að bjóða.
Katrín María


Engin ummæli :

Skrifa ummæli