Skammdegið og ég| Saga af bata

Nú hef ég í fjögur ár vandað mig við að skrifa ekki um persónuleg kynni mín af geðsjúkdómum og hvernig þeir rændum mig tímabundið sjálfstæðinu og lífsviljanum. Ég hef talið mér trú um að ég ætli ekki að vera þessi týpa sem fer að deila vandamálum sínum með öllum heiminum. Eins og það sé einhver týpa? Ég veit vel að ástæður þess að fólk skrifar um geðsjúkdóma er ekki til að láta aðra vorkenna sér, ég veit manna best að það felst ákveðin þerapía í að skrifa sig í gegnum erfiða tíma. Eins veit ég að flestir, ef ekki allir, sem hafa skrifað um sínar upplifanir gera það með þá von í brjósti að það hjálpi einhverjum öðrum. Nú er ég bæði menntuð í og hef haft persónlueg kynni af geðrænum vandamálum og ég veit að allir koma til með að upplifa andlega vanlíðan á einhverjum tímapunkti á æviskeiðinu. Sumir aðeins stutt eða lítið, aðrir langvarandi og jafnvel alvarlega. Mér hefur verið illa við að skrifa um þetta því ég vil ekki hljóma eins og ég sé full sjálfsvorkunar eða ég þurfi einhverskonar viðurkenningu frá umheiminum fyrir að þora að tala um þetta eða hafa komist í gegnum þetta. Ég vil bara geta bent fólki sem spyr mig hvernig ég hafi náð bata á eitthvað haldbært. Maður er alltaf svolítið að forðast óþægilega hluti, og ég vil ekki vera “ein af þessum” sem skrifar opinberlega um eitthvað sem fólk veit hvort sem er svo mikið um. Ég hef sagt það þúsund sinnum áður og segi það einu sinni enn; af öllum fordómum sem ég hef upplifað gagnvart geðsjúkdómum um ævina eru mínir eigin fordómar mestir og verstir. Og þó ég finni mig knúna til að dæma sjálfa mig þá hef ég aldrei í lífinu fundið þörfina fyrir að dæma aðra í sömu sporum eða aðra sem deila sínum sögum. Þau mega eiga bágt, en ekki ég, ég hef enga almennilega ástæðu. Nú er ég í ákveðnum bata, ég er á betri stað en ég hef verið á í um 5 ár, og í fyrsta sinn finnst mér eins og ég geti kannski bætt einhverju við umfjöllunina. Mér hefur alltaf verið illa við að skrifa of langar færslur, aðallega í ljósi þess að ég veit að fólk nennir síður að lesa slíkar færslur. En þessi færsla verður löng, mjög löng. Ég vil frekar koma þessu almennilega frá mér, fyrir mig, og sjá þannig til þess að þeir fáu sem klóra sig í gegnum hana fái almennilega umfjöllun frekar en að reyna að stytta hana til að þóknast öðrum og koma ekki öllu frá mér sem ég vil segja.
Myndirnar eru bara til að gleðja og skreyta
Kvíði hefur stjórnað ákvörðunum mínum frá því ég var barn, án þess að ég hefði hugmynd um það. Árið 2011 flutti ég til Akureyrar til að fara í háskóla. Ég elskaði Akureyri, ég elskaði að búa ein með Magga og ég elskaði skólann. Það var ekkert að en samt tóku foreldrar mínir eftir breytingum á mér þegar ég kom heim í fyrsta jólafríinu. Þau töluðu ekki um það við mig fyrr en um vorið. Um vorið var ég á leið til heimilislæknis í allskonar skoðanir því ég hafði verið tíður gestur á bráðamóttökunni. Ég hélt nefnilega reglulega að ég væri að fá annan blóðtappa (eins og ég fékk þegar ég var 17 ára) og ég ímyndaði mér allskonar verki í löppum og lungum og hingað og þangað. Alltaf var ég skoðuð gaumgæfilega og svo send heim, stálhraust en andlega búin á því eftir að hafa eytt orkunni minni í geðshræringu þar sem ég taldi mér trú um að ég ætti aðeins nokkra daga eftir ólifaða. Ég skildi ekki afhverju ég var að fá þessa verki en ég vildi fara í allsherjar tékk hjá heimilislækni til öryggis. Mamma spurði mig áður en ég fór í tímann hvort ég ætlaði ekki að ræða við lækninn um kvíðann.
Ha? Hvaða kvíða? Ég er ekkert kvíðin. Hún benti mér góðfúslega á hvernig síðustu misseri höfði verið hjá mér, ég átti erfitt með allt, t.d. að hringja og panta tíma hjá þessum umrædda lækni, að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni, tannlækni, að fara út að borða, að fara í bíó. Já okei, kannski var þetta ekki eðlilegt. Var ég kvíðin? Hvernig gat ég verið í námi þar sem ég lærði daglega um geðsjúkdóma, einkenni þeirra og orsakir en ekki áttað mig á því að ég væri bullandi kvíðasjúklingur? Ég kom algjörlega af fjöllum. Og ég var ekki í afneitun, það bara hafði í alvörunni aldrei hvarflað að mér að það væri eitthvað óeðlilegt við það hvernig ég hagaði lífi mínu.
Úr varð að ég var skikkuð til sálfræðings af heimilislækninum mínum. Ég man ég grét allan tímann hjá heimilislækninum því ég vildi ekki fara til sálfræðings, það eitt og sér var of kvíðvænlegt og virtist í mínum huga óyfirstíganlegt. Hún hafði byrjað á að segja að ég þyrfti sennilega að komast á lyf sem fyrst til að komast yfir erfiðasta hjallan því veikindin voru orðin það svæsin að þau röskuðu daglegu lífi mínu umtalsvert. Ég harðneitaði lyfjunum, ekki af stolti, heldur vegna kvíða. Heilsukvíðinn var orðinn þannig að ég var hrædd við hverskonar lyf og mér fannst geðlyf allt of mikið inngrip. Hún sagði að ég kæmist ekki í gegnum þetta hjálparlaust og að hún myndi láta sálfræðing hringja í mig á næstu dögum. Ég fór grátandi út frá henni, ég var ofboðslega sár og reið yfir að missa svona stjórnina. Ég hafði komist í gegnum síðustu vikur og mánuði með því að forðast allt sem mér þótti erfitt eða kvíðvænlegt og þannig vildi ég helst halda því. En að sama skapi hafði sú hegðun orðið til þess að ég varð veikari en nokkru sinni fyrr.
Ég gat ekki verslað í matinn, það var of erfitt að fara í búð þar sem mikið var af fólki og möguleikar á allskonar uppákomum. Ég gat ekki farið út að borða eða í bíó því það að vera föst á einhverjum stað í x langan tíma olli mér mikilli vanlíðan. Ég nennti orðið sjaldan að hitta vinkonur mínar eða fara með þeim út því það var auðveldara að vera heima. Og að lokum endaði það þannig. Ég var alltaf heima. Að vera heima var auðveldara en að taka ákvörðun um að fara út og þurfa að hugsa um allt sem mögulega gæti gerst eða komið uppá á meðan ég væri úti. Hvað ef mér yrði óglatt á meðan ég væri að bíða eftir matnum á veitingastað og ég þyrfti að fara út áður en maturinn kæmi og gæti ekki borgað? Hvað ef fólk myndi setjast sitthvoru megin við mig í bíó og mér yrði skyndilega flökurt og gæti ekki komist í burtu? Kannski myndi ég æla á gólfið eða í fangið á mér. Hvað ef ég færi í Glerártorg og væri komin langt frá útidyrunum og þyrfti skyndilega að kasta upp og myndi bara æla á gólfið? Mér varð óglatt við tilhugsunina. Þannig lýsti minn kvíði sér. Ég var hrædd við að vera innilokuð, við að vera langt frá útgönguleiðum, við að vera föst einhverstaðar á ákveðnum tíma og í flestum tilfellum var ég hrædd um að kasta upp (sem er mjög algengt með kvíðasjúklinga, þ.e. hræðsla við uppköst, ekki raunverulegu uppköst).
Stundum leið mér betur. Stundum ákvað ég að nú gæti ég þetta. Nú færi ég út að borða. Ég man eitt sinn þegar ég hafði ekki val. Maggi átti afmæli og mamma hafði hringt að vestan og boðið okkur út að borða. Hún var búin að panta borð fyrir okkur tvö á veitingastað á Akureyri og hafði látið þau fá kortanúmerið sitt. Við þurftum bara að mæta, panta okkur, njóta og láta svo þjóninn vita að þau höfðu fengið kortanúmerið hennar og þannig yrði borgað. Dagurinn var erfiður, ég hugsaði um þetta allan daginn og hvað það yrði erfitt að þurfa að vera þarna frá því klukkan sjö og þar til við yrðum búin að borða, en ég skyldi láta mig hafa það á afmælisdaginn hans Magga. Við mættum á staðinn og pöntuðum. Mér fór strax að líða undarlega. Var þetta smá magaverkur sem ég fann fyrir? Hmm. Skrítið. Er mér kannski pínu flökurt? Já ég er ekki frá því, ég finn fyrir smá ógleði. Ætli ég sé að verða veik? Ég sat áfram kjurr og velti fyrir mér þessum litla magaverk á meðan við biðum eftir matnum. Var hann að ágerast? Ó nei. Hvað ef ég myndi kasta upp inni á veitingastaðnum? Ég fór að anda hraðar og svitna í lófunum. Ég fann að ógleðin versnaði. Hvað á ég að gera? Ég þarf að sitja hérna þar til maturinn kemur, borða hann og láta svo þjóninn vita hvernig á að borga. Hvað ef ég æli áður en ég næ að ljúka þessu öllu af? Ógleðin hélt áfram að versna. Eftir því sem ég hugsaði meira um allt sem gengi ekki upp ef ég myndi kasta upp þá og þegar því verr leið mér í maganum. Maturinn kom á borðið. Ég hafði enga matarlyst lengur. Ég sagði Magga að mér liði hálfilla, hvort hann gæti drifið sig að borða. Ég sat í nokkrar mínútur í viðbót en þá gat ég ekki meir. Ég sagði Magga með tárin í augunum að mér væri svo flökurt að ég þyrfti að setjast út í bíl, mér þótti ofboðslega leiðinlegt að geta ekki setið og notið þess að borða með honum á afmælisdaginn. Og út fór ég og sat í bílnum þar til Maggi var búinn að borða og borga. Öll ógleði horfin eins og dögg fyrir sólu og það eina sem sat eftir var djúp sorg og óbeit á sjálfri mér fyrir að geta ekki gert eitthvað eins einfalt og að fara út að borða.
Þetta er aðeins ein dæmisaga af þúsund. Svona voru allir dagar þar sem ég þurfti að gera eitthvað. Svona voru búðarferðir, bíóferðir, heimsóknir, tímar eða próf í skólanum, læknisheimsóknir, göngutúrar, kaffihúsaheimsóknir. Allt sem ég þurfti að gera varð á endanum óyfirstíganlegt og ef ég hafði einhvern minnsta möguleika á að forðast hlutina þá gerði ég það undantekningarlaust. Að lokum hætti ég bara að reyna. Ég hitti ekki ættingja, ég svaf ekki á næturnar, ég mætti ekki í skólann, ég verslað ekki í matinn, ég fór ekki út með ruslið, ég fór bara ekki út. Og þetta var hræðilegt. Mér leið ömurlega, ég var að missa af lífinu og litla notalega íbúðin mín var orðin að fangaklefa sem ég hafði óbeit á. Mér leið ömurlega þar inni en ég var þess fullviss að það sem beið utan hennar væri margfalt verra og því væri öruggast að halda sig bara inni.
Á þessum tímapunkti hringdi sálfræðingurinn í mig og sagðist hafa verið í sambandi við heimilislækninn minn. Hún bauð mér að koma til sín og ég jánkaði því samviskusamlega, enda vissi ég að ég hefði þrjá sólahringa til þess að finna afsökun fyrir að mæta ekki í tímann. Það varð þó úr að ég áttaði mig á því að ég þyrfti nauðsynlega að fá hjálp, ég var búin að mála mig algjörlega út í horn og þetta var eitthvað sem ég þurfti að gera. Ég skal segja ykkur það að það þurfti alla þá orku og allt það hugrekki sem ég átti, hvern einasta dropa, til að hafa mig út um dyrnar og til sálfræðingsins. Ég man að fæturnir á mér voru eins og hlaup, ég gat varla gengið á þeim. Ég hafði oft heyrt um slíkt en nú fyrst skildi ég samlíkinguna, hvert skref var barátta við að halda sér frá því að falla til jarðar (bókstaflega). Á endanum komst ég á leiðarenda og hún bauð mér sæti. Ég sat skjálfandi í stólnum, reyndi að brosa kurteisislega og laumuhataði sjálfa mig fyrir að hafa látið plata mig út í þetta. Ég man ekki hvað hún sagði við mig næst, það var eitthvað einfalt, eins og að spyrja hvernig ég hefði það eða eitthvað slíkt og ég man bara að ég fór að gráta. Og svo grét ég held ég allan tímann þangað til ég labbaði út, þúsund tárum léttari en engu nær bata. Og þarna varð vont verra. Ég hélt áfram að hitta sálfræðinginn og fljótlega áttaði ég mig á hinu skelfilega. Ég hafði eytt allri orkunni minni, öllu hugrekkinu mínu og óteljandi tárum í að koma og tala við þennan sálfræðing, en hún gat ekki læknað mig. Og mér fannst það hræðilegt. Til hvers var ég að leggja þetta allt á mig ef hún gat ekki læknað mig? Við tók langt um verra tímabil, skammdegið heltist yfir og ég fann í fyrsta sinn fyrir viðbjóðslegu vonleysistilfinningunni sem fylgir þunglyndi. Og þarna var botninum náð. Af allri þeirri vanlíðan sem kvíðinn hafði ollið mér var ekkert verra en þessi tilfinning; að langa ekki að vera til. Og þarna erum við komin á staðinn sem ég vildi fyrst og fremst ræða í þessari færslu. Langt intro, ég veit.
Kvíðinn hafði þegar rænt mig sjálfstæðinu. Ég gat ekkert sjálf, ég gat ekki verslað í matinn eða gert hluti sem ég hafði áður haft mikið gaman af eins og að fara í bíó eða út að borða. En kvíðinn rændi mig ekki lífsviljanum. Ég gat áfram sinnt aðal áhugamálinu mínu, sem var förðun og bloggið mitt. Það hafði bjargað mér á hinum endalausu andvökunóttum og hjálpað mér að jafna mig þegar ég var lítil í mér eftir skelfilegu kvíðaköstin sem ég átti það til að fá. En þetta nýtilkomna þunglyndi þurrkaði gjörsamlega út áhuga minn á öllu. Mig hefur aldrei langað til að deyja, en á þessum tímapunkti óskaði ég einskis heitar en að þurfa ekki að vera til. Ég man eftir dögum þar sem ég sat í sófanum mínum grátandi heilu dagana á meðan Maggi var í vinnunni. Ég snerti ekki tölvuna mína, ekki símann minn, ekki förðunarvörurnar mínar. Ég sat bara, starði út í loftið og grét. Ég grét þangað til mig sveið í augun, þangað til mér fannst eins og hausinn á mér myndi springa og ég græt jafnvel núna að rifja þetta upp því mér finnst ótrúlegt að ég sé ekki þarna lengur. Í þessum sófa, grátandi, því ég hélt að lífið gæti ekki mögulega haldið áfram. Og samt sit ég hér fjórum árum seinna að skrifa um þetta og þarf að grafa djúpt til að rifja upp þessa vanlíðan því í dag er hún mér svo fjarlæg.
Að nokkrum vikum liðnum náði ég áttum. Ég áttaði mig á því að sálfræðingurinn ætlaði ekki og átti ekki að lækna mig. Hún var aðeins þarna til að gefa mér verkfæri svo ég gæti læknað mig sjálf. Ég nýtti mér þau og laug mig frá kvíðanum. Ég laug því að mér á hverjum degi fyrir framan spegilinn að mér þætti svo auðvelt og gaman að vera til. Jájá, þú ert að fara til læknis, ekkert mál, það verður bara gaman að hitta fólk! Jújú við skellum okkur í bíó, mér finnst hvort sem er ekkert mál að taka spontant og skemmtilegar ákvarðanir, ekkert mál! Þetta sagði ég í alvörunni upphátt og leið eins og fávita í hvert sinn. En svona liðu dagarnir, miserfiðir og flestir mjög erfiðir, þar til að með vorinu var ég komin yfir erfiðasta hjallann og lífið komið í nokkuð eðlilegar skorður á ný. Kvíðinn er vissulega aldrei læknaður og ég berst við hann enn í dag, en hann háir mér ekki eins mikið og hann vinnur æ sjaldnar í rökræðum við sjálfa mig. Kvíðinn má kitla mig að vild ef blessað þunglyndið fer á einhvern svartan, sólarlausan stað og lætur aldrei sjá sig aftur.
En því miður var ég ekki sloppin. Sumarið leið og mér leið vel, ég hafði ásættanlega stjórn á kvíðanum og gat að mestu gert það sem mig langaði til. Með skammdeginu fór ég svo að finna kunnuglega tilfinningu innra með mér. Vonleysið. Andskotinn, ég sem var búin að vinna mig út úr þessu, ég sem hafði fundið að það væri hægt að líða vel og svo ætlaði ég bara aftur ofan í þessa vonlausu og ömurlegu gryfju sem þunglyndið er. En þetta er pínu eins og að vera í frjálsu falli, stanslaust, með milljón haldreipi þjótandi hjá á ógnarhraða en maður nær ekki taki á neinu þeirra. Og niður fór ég. Veturinn leið og mér leið almennt illa, lífið skorti tilgang og ég gerði hlutina af illri nauðsyn og engu meir. Ég nýtti verkfærin sem sálfræðingurinn og námið höfðu gefið mér til að halda mér á floti en það var allt og sumt. Það lagaðist með vorinu, hægar en venjulega og nýtt sumar kom nema að þessu sinni fylgdi því ekki fullur bati. Því fylgdi líka hræðsla. Ég var orðin logandi hrædd við skammdegið, það er svo vont að langa ekki að vera til og ég var ekki tilbúin í að reyna að harka annan vetur af mér á hnefanum. Mig langaði bara að líða vel. Mér leið ekkert sérstaklega vel þetta sumar, en þó hvergi nærri eins illa og um veturinn.
Svo rann næsti vetur upp, haustið var bærilegt en mér versnaði með hverri viku. Að lokum var þunglyndið svo svæsið að mig langaði að leggjast í dvala þar til veturinn væri búinn, raunar langaði mig að leggjast í eilífan dvala því ég trúði ekki einu sinni að sumarið gæti hjálpað mér upp úr þessari ógeðslegu holu. Ég man að stundum fannst mér eins og ég væri að drukkna, í alvörunni. Tilfinningin var eins og allur líkaminn og öll vit væru full af þykkum svörtum reyk og mér fannst ég ekki geta andað eða staðið eða sitið eða legið eða opnað augun eða lokað augunum eða verið til. Mér fannst ég ekki geta verið til mínútunni lengur. Og ég hef aldrei verið eins hrædd á ævinni eins og þegar þessi tilfinning helltist yfir mig. Ég man að stundum hringdi ég í mömmu á öllum tímum sólahringsins af því mér fannst ég ekki geta meir og ég var ráðalaus. Ég hringdi bara og grét og sagðist ekki geta meir, að ég skildi ekki hvað væri að gerast eða af hverju en ég vissi bara að mér liði svo illa að ég gæti ekki andað. Í öll skiptin sagði hún mér að fara upp á bráðageðdeild og í öll skiptin lét ég kvíðann stjórna mér og fann allar mögulegar leiðir til að komast í gegnum þessi augnablik án þess að leita mér hjálpar. Þetta var versta mögulega leiðin til að takast á við þetta og ég vildi óska þess svo heitt að ég hefði farið strax og fengið hjálp. Svona leið veturinn, sá versti sem ég man eftir og sá versti sem ég hef upplifað hingað til. Þegar tók að vora var batinn ekki eins hraður og áður. Ég var gjörsamlega komin með ógeð á sjálfri mér, íbúðinni minni, Akureyri og eiginlega bara lífinu.
Svo kom að því að við ákváðum að flytja vestur á Ísafjörð rétt fyrir seinasta haust. Fyrstu vikurnar gengu vel og mér leið vel, ég var sannfærð um að þetta væri kannski bara það sem ég þurfti, smá tilbreyting. Mér leið svo ennþá betur að sjá hvað Maggi var ánægður í vinnunni og léttur í lund enda átti hann það skilið eftir að hafa staðið eins og klettur við hliðina á mér þrjá dimma vetur í röð. Auk þess varð ég ólétt og það varð eitthvað alveg nýtt og spennandi til að hlakka til. Þetta yrði allt í besta lagi.
1435426531260
Nei. Aldeilis ekki. Það þarf meira en bara spennandi tíma og tilbreytingu til að brjóta þunglyndi á bak aftur. Skammdegið kom og vonleysið með. Þarna var mér allri lokið, ég var komin á algjörlega nýjan stað, var nálægt fjölskyldunni minni og á leið í algjörlega nýtt hlutverk í lífinu, móðurhlutverkið. Samt tókst þunglyndinu að finna mig. Ég reyndi að hunsa það, vonaði að þetta væru bara létt þyngsli á meða ég væri að venjast styttri dögum og meira myrkri. Svo sátum við mamma saman í sólstofunni einn daginn eins og svo oft áður og hún spurði mig hvernig mér liði. Ég man að ég fór að gráta, því þarna þurfti ég ekki aðeins að viðurkenna það fyrir sjálfri mér, heldur henni líka. Mér leið illa. Mjög illa og ég vissi ekki af hverju. Ég var ekki lengur spennt fyrir náminu sem ég var að byrja í, ég var ekki spennt að eignast þetta barn og mig langaði, enn og aftur, að hætta að vera til. Áhugaleysi mitt gagnvart lífinu var algjört. Aftur.
Það kom að því að ég þurfti að segja ljósmóðurinni minni frá þessu. Ég fór í mæðraviðtal til Reykjavíkur og mamma var með. Þarna var ég spurð um andlega líðan og ég neyddist til að segja henni að ég væri að berjast við þunglyndi og ég tengdi það helst við veturna, núna liði mér illa og ég væri ekki beint spennt fyrir komandi tímum. Hún sagði að það væri mikilvægt að ég væri í viðtölum hjá sálfræðingi á meðgöngunni til að minnka líkur á fæðingarþunglyndi og svo ég gæti hugsað um barnið mitt þegar það kæmi, en hana langaði líka að mæla nokkur gildi í blóðinu hjá mér. Þar á meðal D vítamín. Hún sagði mér að inntaka D vítamíns á meðgöngu væri mikilvæg og ég ætti að byrja að taka inn 2000 einingar á dag (eins og er iðulega mælt með við óléttar konur).
Í vikunni eftir þetta viðtal vaknaði ég einn daginn og mér leið mjög skringilega. Ég settist upp í rúminu og skildi ekki hvað var að gerast. Mér fannst pínu eins og ég væri drukkin eða skökk, mér leið ótrúlega vel og það fyrsta sem ég hugsaði var; þetta verður góður dagur. Og þá áttaði ég mig á því að svona hafði mér ekki liðið í einhver fimm ár. Öll þau skipti sem ég hélt mér hafi liði vel, voru ekkert í líkingu við þetta augnablik. Besta orðið sem ég á til að lýsa þessari tilfinningu er venjulegt, mér leið venjulega. Og það er svo fyndið að þetta hálfglataða og einfalda orð geti lýst svona ánægjulegu augnabliki, en þannig var það nú samt. Ég gerði ekki mikið úr þessu, ég skildi ekki afhverju mér leið svona vel en ég ákvað bara að njóta. Um kvöldið var ég kvíðin að fara að sofa því ég hafði notið þess svo að vakna um morgunin og ég kveið því að vakna daginn eftir og allt væri farið í sama horf. En svo vaknaði ég daginn eftir og sá dagur byrjaði eins og svona hélt þetta áfram þar til á fimmta degi þegar ég fór virkilega að spá hvað gæti verið í gangi. Þá mundi ég allt í einu eftir D vítamíninu, ég hafði verið að taka D vítamín í rúmar 2 vikur og ljósmóðirin hafði sagt við mig að í einhverjum tilfellum gæti D vítamínskortur orsakað þunglyndi, sér í lagi svona árstíðarbundið þunglyndi, enda skortir okkur sólina á Íslandi og erum langt í frá eins dugleg að borða fisk og á árum áður.
Ég hafði ekki tengt þetta tvennt saman fyrr en þarna, á fimmta degi af venjulegri líðan. Ég gat ekki verið viss um að þetta væri ástæðan en ég hélt bara áfram að njóta, skíthrædd á hverju einasta kvöldi að dagurinn eftir yrði dagurinn þar sem allt félli aftur í sama horf og þunglyndið helltist yfir á ný. En sá dagur kom aldrei. Síðan er liðið heilt ár, síðan hefur liðið heill vetur og nýtt skammdegistímabil byrjað, og dagurinn hefur enn ekki komið.
Ég fór aftur til ljósmóðurinnar mánuði eftir að hún benti mér á að taka D vítamín, ca. þremur vikum eftir að mér fór að líða venjulega. Þar fór hún í rólegheitum yfir blóðprufurnar mínar og stansaði svo snarlega við einar niðurstöðurnar þar sem hún sá að ég hafði mælst með svæsin D vítamínskort. Þarna varð ég þess eiginlega fullviss að skammdegisþunglyndið hafi farið út af D vítamín inntökunni, ég hafði verið með mikinn skort og líkaminn var að bregðast svona vel við D vítamíninu. Skorturinn var það mikill að ég var sett á ofurskammt af D vítamíni. Ráðlagður dagsskammtur er 600 einingar, ég hafði verið að taka 2.000 einingar síðan ég talaði við hana síðast en átti að fara alla leið upp í 10.000 einingar til að ná mér upp sem fyrst, bæði fyrir mig og Míu. Ég tók 10.000 einingar í 6 vikur og fór svo aftur niður í 2.000 einingar (ofskammtur af D vítamíni getur verið skaðlegur fyrir fóstur ). Nú tek ég daglega 4.000 einingar af D vítamíni og þori ekki fyrir mitt litla líf að hætta því því ég ætla ekki að gefa skammdeginu færi á mér aftur svo auðveldlega.
Það sem ég vil koma til skila er hvernig ég losnaði við mitt skammdegisþunglyndi. Ég var ótrúlega heppin að mitt þunglyndi var ekki af alvarlegri orsökum en D vítamínskorti sem var auðvelt að kippa í lag, það eru alls ekki allir svo heppnir og ég myndi aldrei reikna með því að við læknumst öll af þunglyndi við að taka inn D vítamín. Hins vegar hef ég mikið verið spurð undanfarið hvernig ég komst yfir skammdegisþunglyndið (eftir að hafa minnst á það opinberlega á ýmsum miðlum) og mér hefur þótt erfitt að segja fólki frá því af því mér finnst lausnin eitthvað svo bjánaleg. Ef einhver hefði sagt mér, þegar ég hafði engann lífsvilja, gat ekki andað af vanlíðan og grét stanslaust í marga daga, að ég þyrfti bara að taka inn D vítamín, hefði ég orðið virkilega sár. Geðsjúkdómar eru erfiðir og alvarlegir og það er sárt þegar fólk gerir ráð fyrir að á þeim sé einföld lausn; farðu í göngutúr, hresstu þig við, hittu fólk, taktu vítamín. Mér fannst D vítamínið algjörlega falla í þennan plebbalega flokk af glötuðum hlutum sem fólk mælir með gegn þunglyndi og mann langar síst að heyra þegar maður er bókstaflega að drukkna. Síðan hef ég lært að D vítamín flokkast ekki einungis sem vítamín heldur einnig sem hormón- ef ójafnvægi er á hormónum í líkamanum gefur auga leið að það hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Mig langar bara að segja að ef þú berst við árstíðabundið þunglyndi myndi ég ekki hika við að láta reyna á að taka D vítamín, það er alls ekki víst að það breyti neinu, en í versta falli ertu að fá mikilvægt vítamín sem minnkar líkur á allskonar alvarlegum sjúkdómum eins og brjóstakrabbameini, ristilkrabbameini, beinþynningu, MS, sykursýki, sjálfsofnæmissjúkdómum, liðagigt, óútskýrður háþrýstingi o.fl. D vítamín er alltaf mikilvægt, sérstaklega fyrir íslendinga sem fá litla sem enga sól og fá ekki næstum því nóg D vítamín úr fæðunni.
Maður ætti að taka D vítamín samviskusamlega, daglega út lífið (að mínu auðmjúka mati minnst 2.000 einingar á dag). Kannski lyftir þetta þér upp úr skammdeginu og kannski ekki, kannski tekur það tíma og kannski ekki en worst case scenario er heilbrigðari líkamsstarfssemi (sem er bara alls ekki vont scenario).
Að lokum vil ég taka skýrt fram að það eru ekki allir dagar frábærir og það koma vissulega dagar þar sem mér líður illa eða finnst lífið erfitt, eins og hjá öllum. En það er bara miklu eðlilegri líðan heldur en vanlíðanin sem fylgdi þunglyndinu og bara heill annar handleggur. Lífið er ekki eintómt sólskin en ég er þakklát á meðan ég fyllist ekki af svörtum reyk og vona að það haldist þannig sem lengst. Á meðan lofa ég sjálfri mér að njóta.
Katrín María


Engin ummæli :

Skrifa ummæli