2015/2016

Og þá er líklega best að ég byrji þetta bloggár, fyrst með því að líta til baka og svo með því að líta til framtíðar. Bloggið verður sveipað myndum frá árinu 2015 sem eiga í flestum tilvikum ekkert skylt við textann, bara svo þið klárist ekki úr leiðindum. 

Síðasta "spjallfærsla" var um áramót 2014/2015. Það er svolítið fyndið að líta til baka og sjá hversu mjög hlutirnir hafa breyst. Árið 2015 hefði eiginlega ekki getað tekið óvæntari stefnu en það gerði- það var svo stútfullt af skyndiákvörðunum og stórum lífsákvörðunum að ég hefði eiginlega aldrei getað spáð fyrir um það. Í upphafi ársins hefði ég stungið hvern þann sem hefði reynt að segja mér að í lok árs yrði ég búsett á Ísafirði, hefði hafið mastersnám við Háskólann á Bifröst og væri komin fjóra mánuði á leið með stúlkubarn. Og ég meina... ég er ekkert mikið fyrir að stinga fólk- ekki þannig, en ég hefði líklega alveg gert það í einhverri trylltri geðshræringu því engin þessara hluta hefði getað verið fjarlægari mér í upphafi árs. Ísafjörður var aldrei á planinu. Mastersnám var aldrei á planinu (og þá í fyrstalagi eftir fertugt takk). Barn... jah maður planar ekki börn, þau koma bara ef þau geta og vilja en hversu hjartanlega velkomið var það! Allir þessir hlutir hafa fært mér tilgang og hamingju og ég sé ekki vitund eftir neinum þeirra. 


En það voru líka fleiri hlutir sem ég gerði árið 2015 sem voru óvæntir en veittu hamingju. Fyrir það fyrsta byrjaði ég að "bjútýsnappa" undir snapnafninu mínu katrinmariaa. Það var eiginlega óvart- og fyrst var ég kannski mest að pirra vini og ættingja með förðunarsnöppum fyrir daufum eyrum. Fljótt óx þó áhorfendahópurinn og innan skamms var þetta orðið ein af mínum uppáhalds dægrastyttingum- ekki síst þegar mér bárust sífellt fregnir þess efnis að ég ætti það til að gleðja fólk og kenna því jafnvel eitthvað nytsamlegt. Flestir auðvitað ókunnugir- og það var eitthvað svo dásamleg tilfinning. Ég þakka ykkur öllum, dyggu snapvinir, fyrir skemmtilegt ride sem heldur vonandi áfram að rúlla lengi og vel. 


Ég fór líka í hringferð um landið með Magga sem var óplanað, óvænt en dásamlegt. Þegar maður þráir útlönd stanslaust gleymir maður að þrá Ísland og Ísland kemur á óvart. Verulega. Á örfáum dögum tókst okkur að keyra ríflega 2000 kílómetra með stoppum á sumum af fallegustu stöðum landsins. Við römbuðum t.d. óvænt inn í Þakgil og gistum þar eina nótt á tjaldsvæðinu- einhver fallegasti staður sem við höfum komið á og munum eflaust dvelja þar aftur síðar með nýja fjölskyldumeðlimnum. Það er þó skemmtilegt á það að minnast að eins og ferðin gekk nú vel allan tímann, tókst okkur að sjálfsögðu að sprengja dekk á bílnum síðustu 15 kílómetrana af þessari rúmlega 2000 kílómetra reisu- bara okkar lukka auðvitað. Það vildi til að við "fengum" að skipta um dekkið í sólsetrinu við Rauðasand sem gerði upplifunina allt að því rómantíska (setjum hér ofuráherslu á allt að því). 


Árið 2015 var líka betra á blogginu en fyrri ár. Ég er greinilega mikið að læra og þroskast í mínu áhugamáli og þarf að fara óhuggulega stutt aftur í tímann til að sjá hluti sem veita mér örlítinn (og stundum alveg hellings) kjánahroll. En ég leyfi öllu að hanga hér inni óbreyttu, enda krókótt ferðin upp á við ekki síður mikilvægur hluti af manni en allir áfangarnir sem maður er ánægður með. Einnig var ég duglegri á YouTube og stækkaði rásina mína þar með skemmtilegu fólki.
Ég vona bara að ég haldi áfram að þroskast á öllum þessum sviðum, blogginu, YouTube og Snapchat. Það er alveg klárt að ég get endalaust bætt mig og á margt eftir ólært en það er öruggt að ég hefði ekki lært neitt af þessu án þess að sinna þessu áhugamáli af brennandi ástríðu frá fyrsta degi og alltaf haft trú á að ég gæti lært meira. Förðunarskóli er líka alltaf einhverskonar draumur, ég legg hann ekkert til hliðar á næstunni en ég er dugleg að halda mér uptekinni við eitthvað annað svo það bíður enn. 


Og hvaða væntingar hef ég þá til ársins 2016? Ef síðasta ár hefur kennt mér eitthvað er það að framtíðin og næstu skref, eru ófyrirsjáanleg. Maður getur sett sér markmið og reynt að vinna að þeim en væntingar gera ekki ráð fyrir hinu óvænta. Væntingar eru eitthvað svo ó-spontant, næstum óspennandi. Þannig ég geri engar væntingar til ársins 2016 (vá, þetta hljómar eins og frábært viðhorf til framtíðar!). Hins vegar ætla ég að leggja mig fram við að njóta þess sem ég er að gera hverju sinni. Að njóta þess að vera í mastersnámi, maður er svo sannarlega ekki í mastersnámi oft um ævina. Að njóta þess að eiga stundir með fjölskyldu og vinum, tveir mikilvægir hópar af fólki sem eru sífellt á hreyfingu, síbreytilegir og því miður, í einstaka tilfellum, hverfulir. Að njóta þess að velkomna nýtt líf í heiminn, eitthvað svo ótrúlega magnþrungið og ósjálfgefið. Að njóta þess að sinna áhugamálum mínum og ráðstafa tíma til þeirra, enda auðveldasta leiðin til að týna sjálfum sér að hætta að sinna því sem maður elskar og veitir manni hamingju. Að njóta daganna sem fela ekki í sér neinar sérstakar eða nýjar upplifanir, bara af því að hversdagurinn er fallegur og ekki á allra færi. 

Misskiljið mig ekki. Að vera jákvæður öllum stundum og að muna í amstri hvers einasta dags að njóta stundarinnar er erfitt verkefni og mikil vinna. Þetta er markmið sem ég þarf oft að minna mig á og samt gleymi ég því allt of auðveldlega. En maður getur aðeins stefnt að því að bæta sig, að minna sig á að njóta og vonandi, eftir því sem maður minnir sig á það oftar, veitir það manni alltaf aðeins fleiri góðar stundir. 

Við ykkur kæru blogglesendur vil ég bara segja takk. Þið hjálpið mér að halda þessu áhugamáli mínu áhugaverðu og viðeigandi með því að vera dugleg að fylgjast með og veita feedback. 
Nú er það bara áfram með smjörið!


Katrín María


12 ummæli :

 1. Þú ert nú meira krúttið :) gaman að lesa og ég er mjög spennt fyrir 2016 fyrir þína hönd! Kv dyggASTI followerinn hahaha

  SvaraEyða
  Svör
  1. Takk Magnea! Þú átt þann titil skilyrðislausan! <3

   Eyða
 2. Silja Rán Guðmundsdóttir20. janúar 2016 kl. 21:18

  Mjög fallegar myndir! :) :)

  SvaraEyða
 3. Þú ert svo skemmtilegur penni, Katrín! Mjög gaman að lesa og fallegar myndir, hlakka til að fylgjast með á komandi blogg-ári! :) <3

  SvaraEyða
 4. Ég samgleðst þér svo með allt! Takk fyrir allt sem áður var :*

  SvaraEyða
 5. Mín uppáhalds bloggfærsla fyrr eða síðar <3
  Þú ert svo yndisleg og ég hlakka svo til að fylgjast með ykkur fjölluuunni áfram!
  Og já bara svo þú vitir þá ætla ég að koma í heimsókn vestur í sumar, oook bæ <3

  SvaraEyða
  Svör
  1. Takk elsku best <3
   Og vá ég er peppuð í vestfjarðahitting í sumar, ójá!

   Eyða
 6. Omg fínar myndir Kataa! Og meikar allt sens: engar væntingar-engin vonbrigði, bara hamingja! Þekkidda. Dugleg, keep on og hafðu það ó svo gott

  SvaraEyða