Af afmælum og týndum konum

Seinasta vikan hefur verið upp og niður.
Það var nefnilega þannig að ég átti afmæli, ég bauð góðum vinum í mat og spil og kíkti svo aðeins út að dansa. Það var yndælt og gott. En á sama tíma hefur síðasta vikan verið svolítið erfið. 


Ég er nefnilega ein af "týndu konunum" sem auglýst hefur verið eftir í krabbameinsleit í október. Einhverra hluta vegna hefur þessi einfaldi hlutur, að fara í krabbameinsstroku, vaxið mér stanslaust í augum frá því ég varð tvítug fyrir þremur árum. Hvert einasta haust fæ ég hnútinn í magann og skammast mín í hvert skipti sem ég er spurð hvort ég sé ekki búin að fara í skoðun. Ég hef markviss skrollað framhjá allri umfjöllun um leghálskrabbamein og krabbameinsskoðanir seinustu þrjú árin. Hvort sem það eru auglýsingar, viðtöl eða annars konar umfjallanir- ef það tengist leghálskrabbameini eða krabbameinsleit þá forðaðist ég það eins og heitan eldinn. Ég varð einfaldlega ofsakvíðin við tilhugsunina. 


Ég er svosem kanski extreme dæmi, en ég hef undanfarin ár verið að berjast við kvíða, sem ég tala nú ekki endilega mikið um en hann getur orðið ansi svæsinn.

Ég get sagt það að nú í október var engin undankomuleið. Loksins (þó ég hafi ekki tekið því fagnandi fyrst) var engin leið að komast hjá auglýsingum og vitundavakningu hvað krabbameinsleitina varðaði. Ég var reglulega minnt á þetta af mörgum kjarnakonum í kringum mig sem vissu af þessari hræðslu minni og hvöttu mig stöðugt áfram. Ég hringdi því og pantaði tíma fyrir viku síðan, ekki síst vegna þess að ég var komin með nóg af að skammast mín. Það er fólk nákomið mér sem á ástvini sem eru að berjast við krabbamein og einnig fólk sem hefur tapað baráttunni. Það minnsta sem ég get gert er allavega að taka frá nokkrar mínútur af lífi mínu til að láta skoða mig. Jafnvel þó að ekki verði allt með felldu og haft verði samband við mann vegna frumubreytinga eða þess háttar, þá gefur maður sér allavega betri möguleika á að koma hlutunum aftur í eðlilegt horf ef maður fer snemma í tékk.


Eftir að ég pantaði tíma tók við vika af ofboðslegri lægð og seinustu tvo til þrjá sólahringa hef ég sofið samtals um 3-5 klukkustundir (ég er semsagt nánast svefnlaus). Ég var orðin mjög rugluð og vansæl af svefnleysi svo ég gat ekki beðið eftir að ljúka þessu af.
Ég er ekkert sjúklega æst í að opinbera það hvað ég hafði miklað þetta fyrir mér og gert mikið mál úr þessu, en ég vona að einhver tengi og skilji að þó að manni finnist (eins og mér) að þetta sé óyfirstíganlegt, að þá er það ekki þannig.

Í dag var dagurinn. Ég mætti galvösk, ósofin og uppblásin af ímynduðu hugrekki upp á leitarstöð og beið skjálfandi í bleiku pilsi eftir því sem ég hafði miklað fyrir mér í þrjú ár. Það var næstum svekkjandi hvað þetta var einfalt. Mig langaði helst að biðja kvensjúkdómalækninn að gera þetta svolítið erfitt og vera með smá vesen bara svona svo mér liði ekki eins og algjörum kjána fyrir að hafa kviðið þessu svona lengi. Ég veit ekki hversu oft mig hefur langað að berja höfðinu í vegg þegar ég heyri konur segja "þetta er ekkert mál!". Ég verð að hryggja ykkur með því að þær sögðu satt... allar með tölu.
Þetta var djóklaust svo ótrúlega lítið mál. Ég kveð því hér með þrjú ár af krabbameinsleitarkvíða og hlakka til þess að sofa í nótt.

Ef þú átt eftir að fara af því þú kvíðir leitinni hvet ég þig hér með til að hringja um leið og símalínur opna í fyrramálið. Það er ótrúlegur léttir að klára þetta. Jafnvel þó biðin geti verið erfið.
4 ummæli :

 1. Vá hvað þú ert dugleg!!! Ánægð með þig :)

  SvaraEyða
 2. Flott hjá þér að skrifa um þetta elskan, eflaust margir í sömu stöðu og þú. Ég man að ég treinaði þetta eins lengi og ég gat líka, þangað til að mamma pantaði tíma fyrir mig svo ég gæti ekki afsakað þetta lengur. Njóttu þess að sofa áhyggulaus í nótt ljúfan <3

  SvaraEyða
 3. Vel gert! Ég fór einmitt í fyrsta skipti núna um daginn, og ég er nokkuð eldri en þú (ræðum það ekkert frekar). En ég hafði að vísu bara ekkert hugsað útí það af því að í Englandi þá gera þeir ekki svona fyrir konur yngri en 25, og þegar ég bað um að fara í skoðun þegar ég var einmitt 23 þá var mér hreinlega neitað um það. Hrmfph. En það var allt í orden hjá mér, og það verður það örugglega hjá þér líka ;) Mér var sagt að það væru konurnar sem fara aldrei í skoðun sem lenda einna helst í vandræðum vegna þess að þetta er eitt af þeim krabbameinum sem er allra hægast að vaxa, bókstaflega mörg ár. En nóg um það.

  Það væri gaman að sjá færslu með makeup-inu sem þú keyptir þér í Ameríkunni! Ég sá þarna Nars og Hourglass og ég er ógeðslega forvitin að vita hvað þú keyptir þér ;P

  Knús til ykkar allra á Akureyri!;* Vonandi eruð þið ekki að drukkna í snjó. Hó hó ha ha.
  Antonía

  SvaraEyða