Myndir og spjall

Fólk segist alltaf elska spjall-bloggin mín.
Ég er einmitt í spjallstuði núna. Förum yfir sumarið og skoðum myndir. Svo skulum við ræða haustið og veturinn.


Þetta er búið að vera frekar súrrealískt sumar. Það er búið að vera uppfullt af gleði og sorg, sem er skrítin en samt svo mannleg blanda. Útskrift, ferðalög, brúðkaup hjá vinum og góður frítími með ástvinum hafa verið gjafir sumarsins og að auki var hversdagsleikinn uppfullur af hlutum sem glöddu á sinn einfalda hátt. 
Paint-gerð BA ritgerð. Mín var nefnilega ekki útprentuð en ég þurfti að taka #BAselfie á skiladaginn.
Brúðkaupsvinkonur
Brúðkaupsgestir
Bróðir og sonur <3
Bróðir og bróðursonur <3
Vinir/Systkini <3
Fjölskyldan <3
Gin&Tonic var drykkur sumarsins
Fjölskyldan <3
Sumarbústaðarferð með tengdafjölskyldu
(Já ég kann sko að rómantísera hlutina, er ekki kölluð kósýkata fyrir ekki neitt)
Ferð á Mývatn í 25°C
Grill og meira Gin&Tonic
Kvöldsólin var oftar en ekki nýtt í veiðiferðir niður á bryggju

En í sumar fékk ég líka í fyrsta skipti að kynnast þeirri djúpstæðu sorg og endanleikanum sem fylgir því að missa náinn ástvin þegar afi minn laut í lægra haldi fyrir MND sjúkdómnum eftir stutta en hetjulega baráttu. Vitundavakningin sem orðið hefur í kringum sjúkdóminn upp á síðkastið hefur glatt mig. Bæði með ALS/MND ísfötuáskoruninni sem og þeim frábæra árangri sem MND félagið náði í söfnunarátaki Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka, en þar var Aron Guðmundsson fremstur í flokki með ríflega 1,6 milljónir. Ótrúlega mikilvægur styrkur í baráttunni við þennan ólæknandi sjúkdóm.
Sorgin er erfið en hjálpar manni að sjá hvað lífið og fólkið manns er dýrmætt. Endanleikinn sem fylgir missinum kom mér þó á óvart. Það segir sig sjálft að þegar maður deyr er maður ekki lengur lifandi (ég þurfti ekki háskólagráðu til að átta mig á þessu) en endanleikinn var miklu áþreifanlegri en ég gerði mér grein fyrir. Það er líklega fátt sem getur búið mann undir að missa ástvin, hvort sem maður fær fyrirvara eða ekki. 
Um þessar mundir var stórt skarð einnig hoggið í tengdafjölskylduna mína og geri ég það sem ég get til að styrkja þau í þeirra missi. Það skiptast á skin og skúrir, það eitt er líklega öruggast í lífinu.

Reykjavíkurferðirnar voru ófáar í sumar hvort sem var í regni eða sól.
Á leið í jarðaför.
Á leið í brúðkaup.
Foreldrar mínir, ást í vestfiskri náttúru.
Frændur í hveraþoku.
Tengdafjölskyldustund á Flateyri um verslunarmannahelgi <3
Tekið á móti sumri í Eyjafirði.

Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði á leikskóla fyrir óteljandi (en samt svo fáum) árum, er ég ekki að fara í skóla í haust. Og það er svolítið fyndið, því inni í mér virðist alltaf hafa verið einhver laumulegur skólahatari sem hvetur mig áfram önn eftir önn með einkunarorðunum "eftir svona marga daga, mánuði, ár ertu búin með skólann. Áfram með þig!". Eins og það væri borgaraleg skylda mín að klára akkúrat 10 ár í grunnskóla, 4 ár í menntaskóla og 3 ár í háskóla og eftir það fengi ég einhverskonar frelsi. Það hefur greinilega alltaf einhverjum hluta af mér þótt afskaplega trendý að þola ekki að þurfa að fara í skóla á hverju einasta hausti. Sem er svo mikið rugl því mér finnst gaman að læra og vera í kringum fólk og hefur aldrei í alvörunni þótt leiðinlegt að vera nemandi. Núna eru skólarnir varla byrjaðir og ég er strax bara með harðsperrur í heilanum því ég hugsa svo mikið um hvað ég get lært næst, svo ég geti komist í skóla. Ég er ekki einu sinni komin með vinnu og ég er strax orðin leið á því að vera ekki nemandi? Er ekki allt með felldu? 

Það er eitthvað svo óþægilegt að vita ekki hvað maður er að fara að gera, sérstaklega þegar maður vill helst skipuleggja allt með 10 ára fyrirvara eins og ég... Þannig ég er sannarlega farin að finna fyrir örlitlum vetrarkvíða. Ef ég mætti velja myndi ég bara skrifa eða þýða bækur alla daga það sem eftir er. Ég get lesið endalaust og helst vildi ég það. Endalaust að eilífu. En ég hlakka líka til að kynnast nýju fólki (alvöru fólki, ekki skálduðu fólki í bókum) og það er oft skemmtilegur fylgifiskur þess að gera nýja hluti og byrja í nýrri vinnu. Ég hlakka líka til, það er nefnilega alveg hægt að vera kvíðin og spenntur samtímis. Sem betur fer!

Flyt bara hingað þegar ég er orðin ríkur rithöfundur.
Bókaklám

Hér með kveð ég því sumarið á Íslandi og held til sólarlanda, þannig get ég betur velt fyrir mér vetrinum og lesið aðeins meira. Svona áður en alvaran tekur við.

Ég bið alla förðunaráhugasama afsökunar á þessari löngu og óvenjulega persónulegu færslu um líf mitt. En það er gott að hræra aðeins upp í þessu. Vonandi hrynja förðunarfærslurnar inn eftir nokkrar heimsóknir í Sephora og Ulta og þess háttar.

Katrín María


2 ummæli :