Update| Útskrift, veikindi og annað álíka spennandi


Þetta blogg verður fullt af kósý myndum svo þér líði eins og heima hjá þér.
-----

Það er töluvert langt síðan ég hef sest niður og skrifað bara svona eitthvað. Þær færslur hafa venjulega notið mikilla vinsælda hjá mér. Seinasta færsla sem ég skrifaði, sem var ekki um snyrtvörur eða förðun, var 28. janúar. Þessi hér færsla, þar sem ég ætlaði að taka myndir af hlutum sem gera mig hamingjusama. Hún var reyndar bæði óvinsæl og algjörlega tilgangslaus þar sem þetta var fyrsta og eina skiptið sem ég setti inn "365 grateful" mynd. Þetta er ekki fyrsta færslan sem ég set inn með einhverjum dúndurgóðum hugmyndum sem verða aldrei að veruleika, en það er ágætt að láta sig stundum dreyma um að maður sé eins atorkumikill og maður heldur.


Stundum klára ég reyndar hlutina, eins og um þessar mundir er ég að leggja lokahönd á B.A.- ritgerð og verð vonandi útskrifuð úr Háskólanum á Akureyri í júní (ef allt gengur að óskum). Ég klára líka yfirleitt heilan vodkapela ef ég opna hann á annað borð. Það eru svona þessir mikilvægu hlutir í lífinu sem ég legg allt kapp á að klára. 
Ég er rosalega spennt að útskrifast, og vona að þegar námið á ekki lengur hug minn allan fari bloggið að fá meiri athygli. Mig langar svo að gera eitthvað spennandi með það- en best að fleyta ekki fram neinum hugmyndum eða stórum loforðum, því þá gerist víst ekkert. Mig langar að vera duglegri að setja inn myndbönd eins og ég var hér einu sinni. Er það eitthvað sem hljómar vel í ykkar eyrum?


En veikindi já... ég er reyndar ekki veik, en heimili mitt hefur breyst í einhverskonar sótthví. Það er líklega þess vegna sem ég ákvað að blogga (því mér leiðist). Kærastinn er með streptókokka og ég hef gert það skýrt að engar snertingar eru leyfðar og hann er vinsamlegast beðin um að halda sig hinumegin í íbúðinni og þvo sér um hendurnar á korters fresti. Svo eru brúsar með sótthreinsigeli á hverju borði og ef hann vill borða eða drekka verður hann að kalla í mig og biðja mig að rétta sér, því hann fær sko ekki að spreyja streptókokkum í eldhússkápana.
Ég er ekki með sýklafóbíu, það er bara þannig að ég fæ streptókokka á hverju einasta ári og er annars vegar orðin langþreytt á því og hins vegar á leið í seinasta háskólaprófið mitt í vikunni svo það má ekkert fara úrskeiðis hvað heilsu varðar. Ef þú færð streptó í prófaviku á þessu heimili verðuru bara að sætta þig við mjög takmörkuð mannleg samskipti og snertingu. 


En ég er allavega rosalega spennt fyrir sumrinu og komandi tímum. Ég held að þetta ár sé ár breytinga, enda ýmsum köflum að ljúka og nýjir að taka við. Get ekki sagt annað en að það sé bæði skelfilegt og spennandi, meira spennandi. Næst á dagskrá eru allavega; próf, útskrift, brúðkaup (ekki mitt), vinna, sumardjömm (í fleirtölu vonandi), Ísafjörður og útlönd. Hljómar eins og solid plan þangað til óvissan tekur við. Ég er búin að sveipa óvissuna einhverri rómantík í huganum, ég veit þó upp á hár að það er ekkert rómantískt við óvissu þegar ég er annars vegar- ég tapa bara geðheilsunni og öll rökhugsun hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar hlutirnir eru ekki á kristaltæru. Ótækt að hafa áhyggjur af því strax samt.


Takk fyrir að lesa alltaf. Finnst ótrúlegt hvað þið eruð dugleg að kíkja á bloggið á hverjum degi, jafnvel þótt stundum líði full langt á milli færslna. Bloggið verður 3 ára í júní svo mig langar ofboðslega að fara að henda inn gjafaleik eins og ég hef stundum gert. Ég ætla því að leggja höfuðið í bleyti (og spara peninga) svo ég geti haft afmælisgjafaleik í júní. 

Katrín María4 ummæli :

 1. Yndisleg :) Ég hlakka til að útskrifast með þér í júní!

  SvaraEyða
  Svör
  1. Takk elsku Þórunn <3
   Og já sömuleiðis, við verðum flottar saman!

   Eyða
 2. Ég elska þegar þú skrifar bara svona um eitthvað! Hló upphátt af sýklasögunni!

  SvaraEyða
  Svör
  1. Takk besta <3 Já mér finnst sjálfri rosa gaman að skrifa svona færslur... eða bara skrifa yfir höfuð!

   Eyða