Fallegir Jólapakkar

Ég bölva sjálfri mér í sand og ösku hver einustu jól, yfir að geyma jólagjafakaup þar til um miðjan desember. Ekki af því að það sé erfitt að finna gjafir fyrir alla korter í jól, heldur helst vegna þess að þegar maður á stóra fjölskyldu þá fer maður á hausinn ef maður ætlar að reyna að kaupa þetta allt í sama mánuði. Námsmanna lífið... (eða lífið á Íslandi bara?) 
Veskið hefur greinilega ennþá verið að emja síðan í desember á seinasta ári, því núna (LOKSINS!) fattaði ég þetta í tæka tíð og byrjaði að kaupa jólagjafir í ágúst. Mikið sem ég er glöð núna! Allar jólagjafir keyptar og inn pakkaðar, og meirihlutinn þeirra keyptur áður en desember gekk í garð. 

Ég vildi sýna ykkur hvernig ég pakkaði nokkrum þeirra inn, ekki að þetta sé einhver byltingarkennd hugmynd, alls ekki, þvert á móti held ég að þetta sé ansi vinsæl innpökkunaraðferð. Ég tek upp á þessu svona sum jól (ekki öll því þetta er mun meiri vinna en eðlilegt getur talist í jólagjafainnpökkun). Þessi jólin var það nefnilega svo að Maggi vildi endilega að ég tæki niður tímaritasíður, sem ég hafði hengt upp á vegg við snyrtiborðið mitt. Ég hafði nefnilega fært snyrtiborðið síðan ég hengdi myndirnar upp og í dag er íbúðin þannig upp sett að þessi litríki veggur var staðsettur í stofunni. Hann var lítið hrifin af þessu, enda íbúðin öll mjög stelpuleg fyrir, og þessar skvísur voru eiginlega að fylla mælinn. Ég gat svosem verið sammála um þetta væri svolítið druslulegt svona hálfhangandi, í misgóðu ástandi á veggnum- mér finnst bara svo tómlegt ef það er lítið á veggjunum í kringum mig! Eftir að hafa þrjóskast við í nokkra mánuði, leyfði ég honum loks að rífa þetta niður og ákvað að nota þetta til að pakka inn nokkrum pökkum. 

Mér finnst svona pakkar svo fallegir!

Það er fallegt að pakka inn í svo margt! Dagblöð, blaðsíður úr bókum, maskínupappír sem maður getur skreytt að vild og svona mætti lengi telja! Fljótlegasta leiðin er þó líklega gamli góði jólapappírinn á rúllum, enda fengu flestir pakkar slíkar umbúðir í þetta sinn. 

Katrín María


Engin ummæli :

Skrifa ummæli