Trufflur og trylltur hlátur

Í seinustu viku fór ég ásamt Elmu vinkonu minni í ræktina. Sem er ekki frásögufærandi (eða hvað? hehe) nema jú að eftir ræktina var klukkan heldur margt og líða fór að kvöldmat- við tókum smá rúnt sem endaði svo með því að hún bauð mér skyndilega í mat svo í stað þess að skutla mér heim, renndum við heim til hennar, þar sem hún reiddi fram þennan líka dýrindis kjúklingarétt sem við snæddum ásamt ástmanni hennar.
(Ég veit! Þegar ég segi "bauð mér skyndilega í mat" hljómar eins og hún hafi rykkt í mig á miðjum rúnti, horft tryllingslega á mig og sagt; KOMDU Í MAT TIL MÍN). Það var samt ekki þannig, ég lofa- ég kann bara ekki að segja sögu án þess að bæta við dramatískum smáatriðum.

Þetta er þó ekki öll sagan, því á meðan maturinn eldaðist, (alveg af sjálfu sér), stakk Elma upp á því að við prufuðum uppskrift sem hún fann á netinu og skelltum í svona hollustu trufflur. Stundum verður maður að gera vel við sig í miðri viku. Mér fannst ég knúin til þess að deila þessu með ykkur (sérstaklega til þeirra sem eru í aðeins strangara mataræði í meistaramánuði). Þó ekki of ströngu, því þá væri fólk augljóslega ekki að borða trufflur. 

Innihaldið: Kakósmjör, döðlur, maldon salt, kakó, vanilludropar, kókosflögur, möndlur og valhnetur.

Saxað, skorið, hrært og blandað. 

Voila! Uppskriftin segir að húða eigi kúlurnar með kakói- við erum ekki miklar kakókonur, svo við kusum heldur að velta þeim upp úr kókosmjöli. (P.s. ég veit að ég á ekki alvöru töffaramyndavél sem lætur allt líta út fyrir að vera himneskt- en þrátt fyrir skítlegt útlit voru þessar bollur lostæti) Minni á að allt er gott í hófi!

Niðurstaða= Þetta bragðaðist ískyggilega mikið eins og kókoslengja úr Gamla Bakaríinu á Ísafirði!


Hráefni: 
 • 1 bolli döðlur
 • 1/3 bolli kakó
 • 2-3 msk kakósmjör (brætt)
 • 1 tsk vanilludropar eða 0,5 tsk vanilluduft
 • 0,5 tsk himalajasalt
 • 1 bolli grófsaxaðar hnetur að eigin vali (má setja hvað sem er, svo sem kókosflögur eða rúsínur)
Aðferð: 
 1. Leggið döðlurnar í bleyti í smástund, hellið vatninu af og maukið með töfrasprota.
 2. Bræðið kakósmjörið við mjög lítinn hita eða yfir vatnsbaði og bætið saman við döðlumaukið.
 3. Bætið kakói, salti og vanillu saman við og blandið vel saman.
 4. Blandið hnetunum saman við.
 5. Mótið litlar kúlur (þið gætuð þurft að stinga deiginu inn í ísskáp í smástund ef það er of lint).
 6. Veltið kúlunum upp úr kakói og kælið.
Í þessari uppskrift er kakósmjörið algert möst, því það breytir döðlumassanum í súkkulaðimassa! 

Mikilvægasti parturinn af svona kvöldi finnst mér vera að hlæja tryllingslega af einkar ófyndnum brandörum/samræðum. Það er möst. 

Katrín MaríaEngin ummæli :

Skrifa ummæli