Kvöldstund með vinkonum

Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir viðbrögðin við færslunni sem ég skrifaði í gær! Þið voru ekkert smá mörg sem heimsóttuð Glimmer og Gleði og létu mig vita á einn eða annan hátt að þið hefðuð gaman af skrifunum mínum. Gladdi mig einstaklega mikið :)
-----
En að öðru.
 Augnablik þegar maður gefur sér tíma til að eyða stund með góðum vinum eða vinkonum eru óborganleg. Maður kemst að því í hvert einasta skipti sem maður gefur sér tíma í hittinga, að maður er ekki nógu duglegur og spontant að detta í heimsóknir- það er alltaf of mikið að tala um og allt of stuttur tími. 

Við vorum þrjár vinkonurnar sem kynntumst í gegnum skólann 2011, sem einsettum okkur það fyrir rúmu ári að hittast að minnsta kosti vikulega, bara svo maður gleymi ekki að rækta vináttuna í öllu öðru sem er að gerast í lífi á nýjum stað. Það hefur gengið misvel, eins og vill verða- en við höfum það þó alltaf á bakvið eyrað að hittingar eru þarfir og notalegir svo að við erum duglegar að minna hvora aðra á eða stinga upp á hentugum tímum. Að vera með þrjár mismunandi áætlanir, í þrennskonar námi og þrennskonar vinnum- getur orsakað það að stundum gengur illa að finna stað og stund en okkur tekst það þó alltaf að lokum. 

Í gærkvöldi var eitt af þessum augnablikum. Eftir að hafa setið yfir grænmetisbakka og hráköku, með vatn og te við hönd- ræðandi fjárlagafrumvarp ársins 2014, tíðahringa og barneignir áttuðum við okkur á því að við erum líklega ekki eins hressar og skemmtilegar og við héldum. Við höfum þó gaman hver af annari og það skiptir líklega mestu máli. Stundin var notaleg og við þurftum bókstaflega að slíta okkur frá fullorðinslegu umræðuefninu þegar klukkan var skriðin yfir miðnætti- verandi námsmenn og allt það.

Það er mikilvægt að muna að ekki þarf alltaf ástæðu eða mikinn tíma til að hitta þá sem manni þykir vænt um. Maður gleymir því alveg þegar maður sér fólk og fylgist með því daglega á samfélagsmiðlum, að maður þarf líka að eyða stund saman í raunheimi- það er allt öðruvísi og miklu dýrmætara. Mér finnst þetta ekki síður mikilvægt en að gefa sér tíma í t.d. ræktina.

Katrín María


2 ummæli :

 1. --Það er mikilvægt að muna að ekki þarf alltaf ástæðu eða mikinn tíma til að hitta þá sem manni þykir vænt um. Maður gleymir því alveg þegar maður sér fólk og fylgist með því daglega á samfélagsmiðlum, að maður þarf líka að eyða stund saman í raunheimi- það er allt öðruvísi og miklu dýrmætara.--! vááá þessi setning er svo sönn! og ég þarf klárlega að tileinka mér hana. Hugsa alltof oft æjj það eru allir svo bissí og geri svo ekki neitt í neinu en því verður klárlega kippt í lag sem fyrst.
  -Agata

  SvaraEyða
  Svör
  1. Já maður gleymir sér alveg! Sérstaklega því manni finnst ekkert svo langt síðan maður hitti fólk (þá einmitt út af því að maður getur fylgst með öllum á facebook) en svo eru kanski margar vikur liðnar án þess að maður átti sig á því!

   Takk fyrir að lesa og kommenta :)

   Eyða