Bilun| Októberkaós

Hæ. 
Ég geri mér allt of vel grein fyrir því hversu mikið þessa síðu skortir bloggfærslu- held líka að mig skorti bloggfærslu, svo gott fyrir sálina að sinna áhugamálinu annað slagið (það skrifaði læknirinn minn upp á að minnsta kosti). 

Ég er reyndar á kafi í prófalærdómi og svo eru vinnutörn, engin sólahringsvinna, en nóg til að þreyta mann svo um munar. Hef sem betur fer verið dugleg undanfarið og notað frítímann minn í ræktina þegar ég hefði getað verið að blogga- sem getur nú ekki talist alslæmt. Það hefur allavega hjálpað mikið að brjóta aðeins upp á daginn með því að fara og hrista kroppinn, gefur manni margfalt betri einbeitingu þegar kemur svo að lærdóminum. Verandi háskólanemi, finnst mér októbermánuður oft vera svolítið þungur mánuður, þ.e. maður er hægt og rólega að átta sig á því að myrkrið er komið til að vera næstu mánuði, veturinn er kominn, jólin nálgast óðfluga (eftir að vera nýbúin), öll þung verkefni (eða bara öll verkefni heimsins) í skólanum eru lögð fyrir í október að því er virðist og lotukennslu er hrundið af stað. Október er líka afmælismánuðurinn minn, ég á afmæli 14. október. Venjulega gef ég mér því ekki tíma í afmælisstúss á afmælisdaginn minn, og þetta ár var engin undantekning.
14. október var fyrsti dagur í lotukennslu á þessari önn og ég vaknaði klukkan 07°° og fór á fætur einungis til að uppgötva að ég var fárveik í maganum og þurfti að rjúka aftur upp í rúm þar sem ég lá í keng og vann verkefni með hópnum mínum í gegnum netið með einstaka grát-pásum. Ég er með eindæmum dramatísk, það er alveg rétt (it's my party and I'll cry if I want to). Svona leið afmælisdagurinn þangað til það birti til um miðjan dag- þó einungis nógu mikið til að ég kæmist fram úr  rúminu og yfir í stofusófa þar sem volæði mitt og einsemd hélt áfram.
Sem betur fer kom Magnús hinn mikilfenglegi heim síðdegis og breytti deginum til hins betra (að mestu leyti bara með nærveru sinni og almennum yndislegheitum) en einnig með hollustu-pönnukökubakstri. Pönnukökur eru alltaf plús (hvort heldur sem er á hamingjuskalanum eða vigtinni).

Í október hefur því verið mikið að gera, sem er oft bara gott- þá gleymir maður smávægilegum vandamálum sem maður er stundum allt of duglegur að velta sér upp úr og skipta engu raunverulegu máli! 

Tvær gallharðar að valda fjaðrafoki.

Ég nýtti seinustu helgina í október í smávegis afmælisgleði með vinafólki- sem heppnaðist stórvel og ég kveð því október á góðum nótum- en þakka guði fyrir að það er ár í næsta októbermánuð :D
Katrín María


Engin ummæli :

Skrifa ummæli