Umfjöllun: Remington Pearl Wand

Heil og sæl aftur!
Í þessu bloggi ætla ég að fjalla svolítið um "Remington  Pearl Wand", sem er krullujárn frá Remington, án klemmu. Þetta er semsagt í rauninni bara keila, sem þú vefur hárinu utan um. Mesti munurinn á þessu og krullujárni með klemmu er að mínu mati sá að þú getur búið til mun fjölbreyttari og náttúrulegri krullur með keilunni. Þetta er mjög jákvætt þar sem það eru kanski ekki allir að fýla gömlu góðu fermingarkrullurnar í dag.

Járnið lítur svona  út:

Ég fékk járnið að gjöf frá kærastanum mínum fyrir nokkrum mánuðum, en mig hafði langað rosalega lengi að prufa slíka græju. Hann gaf mér líka krullujárn með klemmu í jólagjöf fyrir u.þ.b. 2 árum sem ég hef notað ansi mikið.
Það tekur mig hinsvegar um tvær og hálfa klukkustund að krulla mig sjálf með því járni, en eftir að ég fékk þetta tekur það í mesta lagi hálftíma, og ef ég er ekki að reyna að ná einhverju fullkomnu lúkki, getur þetta tekið um 10 mínútur.

Ástæðan er sú að járnið hitnar á 30 sekúndum, það eru margar mismunandi hitastillingar á því, allt eftir því hvernig hárið á þér þolir hita eða hvað þú ert tilbúin að hita það mikið og með þessum almennilega hita og góðu húð sem hylur járnið, þarftu ekki að halda nema í mestalagi 5 sekúndur og þá er lokkurinn tilbúin. Með venjulegu krullujárni með klemmu (að minnsta kosti þeim sem ég hef prófað) heldur maður mun lengur og er aldrei alveg viss hvenær lokkurinn er tilbúinn.

Járnið er fallegt, með sætu blómamynstri og svo eru örlitlar agnir af glimmeri á allri keilunni sem gerir það alveg extra girly og skemmtilegt.
Það er snúningssnúra á því (eins og á öllum almennilegum krullujárnum í dag) því það er ekkert meira pirrandi en að þurfa að gera hlé á krulleríinu til þess að snúa því marga hringi til baka því snúran er farin að vefjast um sjálfa sig.
Og eins og ég sagði áðan getur maður stillt hitan á járninu að vild, t.d. minni hiti fyrir viðkvæmt eða þunnt hár, og meiri hiti fyrir þykkt og heilbrigt hár, allt eftir því hvernig maður vill hafa það.
Járnið er breitt í annan endan og mjókkar svo út, sem þýðir að þú getur haft stærri krullur, minni krullur og jafnvel blandað þeim saman til að fá fjölbreytt og náttúrulegt útlit á hárið.
Það fylgir einn hanski með járninu, en járnið getur orðið rosalega heitt og það er auðvelt að brenna sig á því ef maður er ekki vanur að nota svoleiðis tæki. Hanskann setur maður á höndina sem maður notar til að vefja hárinu um keiluna, því svo þarf maður að halda hárinu þar í nokkrar sekúndur á meðan það krullast.
Mér finnst erfitt að nota hanskann því þá hef ég minni tilfinningu fyrir lokknum sem ég er að vefja, og þess vegna sleppi ég honum oftast, en það hefur líka orðið til þess að ég brenni mig ansi oft, sem er ekki uppáhalds!

Mín uppáhalds leið til að nota járnið er að taka lokk, snúa upp á hann allan og vefja honum svo utan um keiluna og krulla hann. Þetta gerir eitthvað svo sérstakar krullur, en samt svo náttúrulegar og töff. Ég vildi bara að ég væri með aðeins síðara hár, því það styttist auðvitað helling þegar krullurnar eru komnar í, og ég fýla það ekki alveg nógu vel. En krullur í síðu, fallegu hári eru to die for. (Allavega fyrir einhvern með jafn slétt og dautt hár og ég er með)! :) 

Járnið mitt var keypt á 10.000-13.000 kr.- ég man ekki nákvæmlega verðið, en það var keypt einhversstaðar á Ísafirði, pantað frá Reykjavík.
En ég veit að það er til (eða var til í júní) í fríhöfninni í Keflavík á undir 5.000 kr.- sem er fáránlega góður díll!
Mæli með þessu fyrir krulluáhugafólk, og í guðanna bænum passið ykkur að brenna ykkur ekki!

Nokkrar gerðir af krullum gerðar með Remington Pearl Wand: 

Kate Hudson með frekar fínar og settlegar krullur hér til vinstri og Uma Thurman til hægri með lauslegar krullur, vafðar í uppgreiðslu.

Hérna eru krullurnar stærri og lauslegri, náttúrulegri og einfaldlega sexý!
-Kata!
Engin ummæli :

Skrifa ummæli